Körfuknattleikssamband Íslands tilkynnti það í hádeginu í dag að vegna hagræðingar á rekstri sambandsins hafi stjórn KKÍ ákveðið að Friðrik Ingi Rúnarsson láti af störfum framkvæmdastjóra nú um mánaðarmótin. Karfan.is setti sig í samband við Hannes S. Jónsson formann KKÍ sem sagði ákvörðunina hafa verið bæði sársaukafulla og erfiða.
„Þetta snýst um fjárhagslega hagræðingu,“ svaraði Hannes þegar hann var beðinn um að varpa frekara ljósi á málið. „Þetta snýst ekki að persónu eða störfum Friðriks Inga heldur að minnka kostnað á skrifstofuna og svona hlutir eru alltaf sársaukafullir,“ sagði Hannes sem hefur verið ötull talsmaður aukins fjármagns frá hinu opinbera inn í íþróttahreyfinguna.



