Jóns Kristmannssonar var minnst á dögunum þegar KFÍ og Keflavík áttust við á Jakanum í Domino´s deild karla. Jón var formaður Körfuknattleiksfélags KFÍ 1994-2004 og er sá formaður KFÍ sem setið hefur lengst allra.
Í grein sem birtist á heimasíðu KFÍ í ársbyrjun segir m.a:
„Jonni fylgdi liðinu sínu vel eftir og ávann sér virðingu í heimi körfunnar langt út fyrir raðir KFÍ. Hann stóð með félaginu í gegnum súrt og sætt gegnheill og traustur. Menn minnast stjórnarfundanna heima í stofu hjá Jonna og Huldu á Seljalandsvegi 36 þar sem alltaf var nýbakað með kaffinu. Hann lá ekki á skoðunum sínum ef hann taldi að hægt væri að gera betur enda mikill keppnismaður í íþróttum frá gamalli tíð og líkaði illa að tapa. Handtakið var þétt og sterkt og þegar ákvörðun lá fyrir var henni ekki hnikað. Jonni var sem klettur í starfi félagsins, hann hugsaði vel um sína og væru leikmenn eða stjórnarmenn í vanda var leitað til Jonna sem oftar en ekki leysti úr málum.“
Mynd/ Svona var Jóns formanns minnst við viðureign KFÍ og Keflavíkur þann 17. janúar síðastliðinn. Þarna var hans sæti alla hans formannstíð en settist hann þó aldrei á bekkina.



