spot_img
HomeFréttirFráköst og barátta skilaði Grindavík í Höllina

Fráköst og barátta skilaði Grindavík í Höllina

Spennan lá í loftinu í Röstinni í kvöld er heimamenn mættu Þór Þorlákshöfn í undanúrslitum bikarkeppninnar. Mike Cook Jr. hjá Þór setti fyrstu körfu leiksins og í næstu sókn hitti Sigurður Þorsteinsson ekki úr skoti en Ómar Örn Sævarsson tekur sóknarfrákast, næst klikkar Jóhann Árni Ólafsson úr þriggja stiga skoti og aftur tekur Ómar sóknarfrákast og endar sóknin með því að Ómar skorar 2 stig. Það má segja að þessi lýsing eigi við um 1. leikhlutann en Grindavík tók alls 9 sóknarfráköst í leikhlutanum. Liðin skiptast á að skora og leikurinn er mjög hraður en Grindvíkingar sigu hægt og rólega fram úr og breyttu stöðunni úr 9-8 í 18-9 á skömmum tíma. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 32-19 og augljóst hver var ástæðan fyrir þessum mun, Grindavík var búið að taka 16 fráköst á móti 5 hjá Þór og þar af voru 9 sóknarfráköst sem gáfu liðinu ítrekað annan og þriðja séns í sókninni. Ómar mætti virkilega vel stemmdur og var komin með 8 stig og 5 fráköst (3 í sókn) í 1. leikhluta og Siggi var öflugur með 10 stig og 3 sóknarfráköst. Lewic Clinch var með 8 stig og 6 stoðsendingar. Hjá Þór voru Ragnar Nathanaelsson og Tómas Heiðar Tómasson með 7 stig hvor.
 
 
Leikurinn jafnaðist út í 2.leikhluta og var sóknarleikurinn mjög áberandi meðan minna bar á varnarleik. Mikið um flott tilþrif og skemmtilegur leikur fyrir augað og tókst Þór að minnka muninn lítillega áður en flautað var til hálfleiks er staðan var 59-50 fyrir Grindavík. Hjá Grindavík var Lewis stigahæstur með 18 stig og 9 stoðsendingar, Siggi með 17 stig og 7 fráköst og Ómar með 10 stig og 5 fráköst. Mike átti einstaklega góðan 2. leikhluta fyrir Þór og var komin með 22 stig, Ragnar með 11 stig og Tómas með 7 stig.
 
Það leit út fyrir að báðir þjálfarar hafi haldið sömu hálfleiksræðuna, vörn – vörn – vörn – og hægðist mjög á sóknarleiknum hjá báðum liðum og varnarleikurinn með tilheyrandi hörku og stimpingum fór að vera meira áberandi. Þórsarar mættu mjög ákveðnir til leiks og snemma í leikhlutanum nær Tómas góðu sóknarfrákasti fyrir Þór og setur svo niður þrist og minnkar muninn í 63-60 og stemningin jókst gífurlega á áhorfendapöllunum Þórs-megin meðan stressið jókst Grindavíkur-megin. Grindvíkingar náðu muninum aftur upp í 8 stig en Þórsarar ætluðu ekki að gefa bikarúrslitaleikinn eftir auðveldlega og héldu áfram að berjast og tókst aftur að minnka muninn niður í 3 stig 73-70 sem voru lokatölur í þriðja leikhluta.
Upphaf fjórða leikhluta var eins og bikarleikir eiga að vera, Þórsarar börðust af miklum krafti til að reyna að jafna leikinn á sama tíma og Grindvíkingar reyndu að vera skynsamir í vörn og sókn. Um miðjan leikhlutann var munurinn kominn upp í 12 stig Grindavík í vil og þrátt fyrir að Þórsarar börðust vel þá var á þessum tímapunkti orðið ljóst að eitthvað mikið þyrfti að gerast til að Grindavík myndi missa niður þennan mun. Svo fór að Grindavík vann 93-84 eftir stórskemmtilegan bikarleik. Lykilinn að sigri Grindavíkur var lagður í 1.leikhluta þegar liðið náði 13 stiga mun ásamt því sem Grindavík tók alls 20 sóknarfráköst í leiknum.
 
Hjá Grindavík var Ómar Örn Sævarsson frábær með 19 stig og 16 fráköst, þar af 9 í sókn og verður drengurinn aðeins betri með hverju ári, Lewis Clinch var með 23 stig og 13 stoðsendingar, Sigurður Þorsteinsson með 26 stig og 11 fráköst og Ólafur Ólafsson með 11 stig.
 
Hjá Þór var Mike Cook Jr. með 31 stig, Ragnar Nathanaelsson með 19 stig og 8 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson með 11 stig og Tómas Heiðar Tómasson með 10 stig. Miklu munaði fyrir Þórs-liðið að Nemanja Sovic fann sig aldrei í leiknum og endaði með 2 stig.
 
 
Mynd/ Bjarki Guðmundsson – Ólafur Ólafsson og Grindvíkingar eru á leið í Laugardalshöll.
Umfjöllun/ BG
 
  
Fréttir
- Auglýsing -