Nokkur umræða hefur spunnist um störf Aga- og úrskurðarnefndar KKÍ eftir úrskurð þeirra í máli Junior Hairston og þá helst að ósamræmi sé milli hans og dóms í máli gegn Rögnu Margréti Brynjarsdóttur á dögunum. Allnokkrir hafa rýnt í dómana og borið saman og skilja ekki hvar munurinn liggur og telja sumir einhverjar annarlegar hvatir liggja þarna að baki.
Það er ljóst að ákveðin mótsögn er í regluverki sem nefndin vinnur eftir. Í 4. mgr. 6. gr. reglugerðar um aga- og úrskurðarmál segir að aga- og úrskurðarnefnd skuli bundin af ákvörðun dómara leiks, t.d varðandi brottvísun eða tæknivillu. Í 7. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar segir hins vegar að aga- og úrskurðarnefnd sé heimilt að taka til meðferðar kæru eða ábendingu á agabroti sem framið var án vitundar dómara leiksins eða dómari ekki vísað viðkomandi af leikvelli eða keppnisstað, ef gögn sýna á óyggjandi hátt að brot hafi verið framið.
Í báðum málum klofnaði nefndin í tvennt, voru nefndarmenn ekki sammála um hvor málsgreinin væri sterkari en það má þó benda á það að nefndarmenn eru samkvæmir sjálfum sér í báðum málum. Í báðum málum eru sömu þrír sem telja 4. mgr. 6. gr. sterkari en munurinn gæti legið í þeim sem telja 7. mgr. 6. gr. sterkari. Í fyrra málinu vék einn nefndarmaður sæti vegna vanhæfis sökum tengsla við Snæfell. Það voru því bara 5 sem dæmdu í því máli en í seinna málinu var hann ekki vanhæfur og því dæmdu 6. Sá sem hafði verið vanhæfur er sömu skoðunar og minnihlutinn í fyrra málinu og því varð jafnt í seinna málinu og þá gildir atkvæði formanns tvöfalt og þar með kemur önnur niðurstaða.
Það sem eftir situr er að stjórn KKÍ þarf að laga þessa mótsögn sem fyrst svo svona mál komi ekki upp oftar. Miðað við umræðuna og ekki síst ummæli þjálfara Hairston þá vill fólk almennt að refsað sé fyrir svona brot þó dómarinn hafi ekki tekið á því með réttum hætti í leiknum. Að öðrum kosti erum við að bjóða hættunni heim.
Ritstjóri Karfan.is



