Snæfellsstúlkur styrktu stöðu sína á toppi Dominosdeildar kvenna enn frekar í kvöld með góðum sigri á Keflavík í TM-höllinni. Sigurinn var þó ekki auðveldur því framan af virtust Keflavíkurstúlkur að selja sig ansi dýr og jafnt var í hálfleik 44:44. En í þeim seinni og þá sérstaklega í þriðja leikhluta þá gáfu gestínunar í og settu 24 stig gegn aðeins 13 og þar með var grunnurinn lagður.
Það verður seint sagt um þetta Snæfellslið að það vanti leikmenn í stöður þar á bæ. Valin kona í hverju horni og svo ofaná það ungar stúlkur sem sýna engum virðingu og þar má helst nefna Evu Kristjánsdóttir sem í kvöld var að sýna undirrituðum fanta frammistöðu. Eva lokaði leik með 10 stigum og 7 fráköstum. En það var meira og minna varnarleikur Snæfells í þriðja leikhluta sem skóp sigurinn þetta kvöldið. Framan af voru Keflavíkurstúlkur að gera gríðarlega vel með því að keyra í teiginn og skora eða fiska villur og setja vítinn niður. Einnig voru þær grimmar á sóknarfráköstin, eitthvað sem hefur varla sést í allan vetur hjá þessum stúlkum úr Keflavíkinni.
En í þriðja leikhluta vakúmpakkaði 1-3-1 svæðisvörn Snæfells teiginn í vörninni og þær Keflvísku neyddust til að sýna hversu megnugar þær voru í skotum sínum utan af velli. Þetta dugði til því ágætis skot sem heimasæturnar fengu voru ekki að detta niður og á stundum virtust þær hreinlega óheppnar með sum skot sem döngluðu á hringnum en vildu ekki ofaní. En það verður ekki tekið frá Snæfell að þær eru með gríðarlega sterkt lið og eru vel að þessum sigri komnar í kvöld. Þó svo að Chynna Brown hafi verið atkvæðamest þá voru stúlkur eins og Hildur Sig og Hildur Kjartans algerlega ómissandi og spiluðu gríðarlega vel.
Hjá Keflavík var Sara Rún Hinriksdóttir stigahæst með 21 stig og næst henni kom DiAmber Johnson með 18. Þar af 8 stig á síðustu metrunum þegar leikurin var í raun búin. DiAmber á enn eftir að sýna hinsvegar hvað í henni býr en skot nýting hennar í kvöld var ekki góð.
Mynd/Texti:Skúli Sig



