Breiðablik og FSu áttust við á heimavelli þeirra síðarnefndu í mikilvægri baráttu um sæti í úrslitakeppni 1. deildar karla í kvöld. Liðin komu jöfn til leiks með 5 sigra hvort en FSu betri innbyrðis stöðu eftir góðan sigur í Kópavogi í haust. Mikilvægið leyndi sér ekki, leikurinn einkenndist af miklum átökum og baráttu en FSu hafði að lokum betur í þeim slag og vann 93-84.
Blikarnir komu þó mun ákveðnari til leiks, létu finna vel fyrir sér í vörninni og heimastrákar hrukku undan og sóknin varð vandræðaleg á löngum köflum. Munurinn varð þó sem betur fer aldrei mjög mikill, mest 8 stig gestunum í hag í fyrsta leikhluta, en FSu lagaði stöðuna heldur síðustu 2 mínúturnar og staðan 13-19 eftir 10 mínútur.
Í öðrum leikhluta náði Breiðablik strax 10 stiga mun og hélt honum út leikhlutann, en staðan í hálfleik var 35-46. Hálfleikshléið nýttu heimamenn til að stappa í sig stálinu og eftir 5 mínútur í seinni hálfleik voru þeir búnir að jafna 46-46 og komust 6 stigum yfir, 52-46 áður en gestirnir komust loks á blað með þriggja stiga körfu þegar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Þegar 10 mínútur voru eftir leiddi FSu 58-54, og segja má með sanni að liðið hafi heldur betur skriðið út úr skelinni og hrist af sér slyðruorðið sem af því fór í upphafi leiks.
FSu hélt áfram að hamra járnið af fullu afli, spilaði frábæra vörn í upphafi 4. leikhluta svo dæmið snerist algerlega við frá fyrsta leikhlutanum, Blikarnir urðu ráðleysislegir og heimamenn nýttu sér það til fullnustu með því að stela boltanum og skora auðveld stig úr hraðaupphlaupum. Þegar 5 mínútur voru eftir munaði 19 stigum, 76-57, og þó gestirnir minnkuðu muninn í lokin áttu þeir ekki séns í að stela sigri.
Fyrir Breiðabliki fóru þeir Þorsteinn Gunnlaugsson (17 stig og 8 fráköst) og bræðurnir Oddur Rúnar (17 stig, 57% þriggjastiganýting) og Björn (11 stig, 8 fráköst) Kristjánssynir. Aðrir leikmenn voru líka með á nótunum, og skiluðu sínum hlutverkum vel í fyrri hálfleik, en liðið allt fékk á sig brotsjó í þeim seinni, púðrið blotnaði og þar með voru fallstykkin úr leik.
Collin Pryor girti sig heldur betur í brók eftir erfiða byrjun og endaði með 33 stig, 17 fráköst, 7 stoðsendingar og 82% skotnýtingu. Hann var langhæstur leikmanna með 50 framlagsstig og leiddi heimaliðið til sigurs. Sæmundur Valdimarsson lék sinn fyrsta leik fyrir uppeldisfélagið á tímabilinu, en hann er á lánssamningi frá Stjörnunni, og gerði gæfumun með 17 stigum og 5 fráköstum. Sæmi eykur breiddina í liðinu mikið og skapar fjölbreytt vandræði fyrir andstæðinginn beggja vegna á vellinum. Erlendur Ágúst var mjög góður, spilaði glimrandi vörn og lék af mun meiri yfirvegun í sókninni en í undanförnum leikjum, skoraði 10 stig og leysti leikstjórahlutverkið vel.
Eitt það jákvæðasta við þennan leik hjá FSu var að liðið sigraði þó tvö af beittustu sóknarvopnunum væru langt frá meðaltölum sínum. Hlynur Hreinsson var í villuvandræðum og sat á bekknum mest allan tímann og Ari Gylfason hitti illa, skoraði 8 stig, en þó tvo þrista sem stráðu smá salti í skeinur á mikilvægum augnablikum. Ari bætti lágt skor upp varnarlega með 5 fráköstum og hélt Jerry Lewis Hollis að mestu niðri. Birkir, Svavar Ingi og Arnþór lögðu allir þung lóð á vogarskálar flottrar liðsvarnar með frábærri baráttu.
Þessi leikur, í kjölfar ágætrar frammistöðu gegn Tindastóli í síðustu viku, gefur góð fyrirheit um að liðið sé aftur á uppleið, eftir að hafa verið brokkgengt í „dýrum“ tapleikjum gegn Hamri, Þór og Hetti.
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson
Mynd úr safni/ Frá leik í Iðu



