Jón Arnór Stefánsson og félagar í Zaragoza eru komnir í fjögurra liða úrslit í Spænska konungsbikarnum þetta árið eftir sigur á Unicaja Malaga í gærkvöldi. Jón spilaði aðeins 10 mínútur í leiknum að þessu sinni og setti niður 3 stig. Mínútufjöldi Jóns kemur líkast til mörgum á óvart en það er góð skýring á því. “Ég gat varla lyft upp höndunum í leiknum. Ég er búin að vera mjög veikur með slæma magapest og í raun aldrei upplifað slíkt áður. Hef ekki náð að nærast og þetta er búið að vera í einhverja 4 daga.” sagði Jón í snörpu viðtali við Karfan.is
”Ég næ loksins að nærast í dag og safna kröftum fyrir morgundaginn. Er komin með matarlystina aftur og er bara nokkuð brattur. Hvíli mig vel og svo tökum við á Madridingum á morgun.” bætti Jón við. ”Real eru með besta lið í Evrópu í dag og eru taplausir í deildinni. Allir spá þeim sigri í deild, bikar og Euroleague og í framhaldi auðvitað í þessum leik gegn okkur en ætlum okkur að njóta þess að spila gegn þeim og ég er sannfærður um að við eigum að geta strítt þeim.”
Leikurinn fer fram í Malaga á morgun kl 19:10 að staðartíma eða klukkutíma síðar (18:10) á íslenskum tíma.



