Grindvíkingar gáfu engin grið þegar KFÍ kom í heimsókn í Röstina í kvöld. Lokatölur 97-48 þar sem gestirnir að vestan áttu einfaldlega við ofurefli að etja. Gulir meistararnir slökuðu hvergi á klónni enda hver stórleikurinn sem rekur annan hjá þeim næstu misserin og það var keyrt í botni allar 40 mínúturnar. Sigurður Gunnar Þorsteinsson var atkvæðamestur í liði Grindavíkur með 23 stig og 8 fráköst en Ágúst Angantýsson gerði 17 stig og tók 13 fráköst í liði KFÍ.
Þegar lokaflautið gall varð það ljóst að KFÍ reyndist fyrsta liðið síðan 2008 til þess að skora ekki þriggja stiga körfu í úrvalsdeild. Það afrekuðu Hamarsmenn síðast í leik gegn ÍR þann 18. mars 2008 og brenndu þá af 13 þriggja stiga skotum en KFÍ fékk 17 tilraunir í Röstinni og engin þeirra vildi heim.
Þegar Ólafur Ólafsson var í tvígang búinn að troða eftir hraðaupphlaup Grindvíkinga á fyrstu augnablikum leiksins var nokkuð ljóst í hvað stefndi. Gestirnir frá Ísafirði voru hvað eftir annað eknir í kaf og án Mirko, eins af betri stóru mönnum deildarinnar, áttu liðsmenn Birgis erfitt uppdráttar. Grindvíkingar leiddu 32-15 að loknum fyrsta leikhluta og varnarleikurinn hjá heimamönnum var gestunum illur viðureignar og virtist á löngum köflum aðeins vera á færi Brown að finna glufurnar sem gáfu körfur.
Heimamenn í Grindavík gáfu engin grið og héldu KFÍ án stiga fyrstu fimm mínúturnar í öðrum leikhluta en þegar gestunum tókst loks að koma niður körfu var staðan 40-17 og heimamenn leiddu svo 55-26 í hálfleik. Lewis Clinch Jr. var með 15 stig hjá Grindavík í hálfleik og Joshua Brown 12 í liði KFÍ. Eftir að fyrri hálfleik lauk fékk Birgir Örn þjálfari KFÍ dæmda á sig tæknivillu fyrir mótmæli á leið sinni inn í búningsklefa svo mótlæti gestanna í Röstinni var töluvert.

Í þriðja leikhluta gerði munurinn ekkert annað en að aukast. Grindavík hóf síðari hálfleik með 10-0 skvettu og ef Ísfirðingar voru beygðir fyrir þá var þeim öllum eiginlega lokið við þetta. Gestirnir létu stöðuna vitaskuld ná inn fyrir hjá sér og hengdu of oft haus, fylgdu greinilega ekki þeim ráðleggingum sem Birgir hafði fyrir þá á hliðarlínunni og voru 45 stigum undir þegar fjórði leikhluti hófst (87-42).
Það er ekki ofsögum sagt að fjórði leikhlutinn hafi í reynd verið besti leikhluti leiksins í kvöld, Grindavík vann þann fjórða 10-6 þar sem yngri og óreyndari menn liðanna fengu að spreyta sig og vel var tekið á því. Lokatölur 97-48 og KFÍ sem gaf toppliði KR ekkert eftir á föstudag átti sér ekki viðreisnar von þennan sunnudaginn.
Viðtal við Sigurð Gunnar Þorsteinsson miðherja Grindavíkur:



