spot_img
HomeFréttirLeBron: "Ég myndi vinna troðslukeppnina"

LeBron: “Ég myndi vinna troðslukeppnina”

Mikið hefur verið vælt um það að LeBron James ætti að taka þátt í troðslukeppninni sem haldin er ár hvert um stjörnuleikshelgina. Fram að þessu hefur LeBron lítið gefið frá sér í þeim efnum og látið verk sín á körfuboltavellinum tala sínu máli. Nú er hins vegar annað hljóð komið í strokkinn.
 
Undanfarið hefur borið á sífellt fleiri athugasemdum frá besta körfuboltamanni jarðríkis um hitt og þetta varðandi hvað hann gæti gert ef hann vildi.
 
Sagði t.d. að hann gæti verið 50-40-90 maður ef hann langaði, að hann gæti verið með 60-70 stig í leik ef hann tæki 30-40 skot… og nú síðast að hann myndi vinna troðslukeppnina ef hann tæki þátt.
 
LeBron hélt nýverið troðslusýningu fyrir liðsfélaga sína og blaðamenn, í æfingasal í Phoenix fyrir leik þeirra gegn Suns um daginn. Þar sýndi hann einhverjar kúnstir með því að henda boltanum í vegginn fyrir aftan körfuna og troða svo boltanum af mikilli ákefð í körfuna. Allt mjög kröftugar troðslur, en ekkert sem skellti hökunni á manni í gólfið. 
 
 
Það vita allir til hvers hann er megnugur og það hafa ófáir nafntogaðir leikmenn þegið tepokann frá honum eftir mannskemmandi veggspjöld. Þess vegna skil ég ekki þessi látalæti og minnimáttarkennd núna. “Gæti” og “ef” eru orð fyrir þá sem þurfa að sanna eitthvað en efast um að þeir geti það. Hann er nú þegar búinn að fullyrða að hann muni vinna yfir sjö titla fyrir Miami Heat og ætti því að einbeita sér að því markmiði án þess að stressa sig á öðrum minni afrekum sem þessum.
 
Að mínu mati myndi hann ekki vinna troðslukeppnina ef hann tæki þátt. Ekki nema hann fengi Dwight Howard sem tuskudúkku í Superman-búningnum til að standa fyrir og reyna að blokka hann. Það er einmitt það sem LeBron gerir best – TROÐA YFIR MENN.
 
Því held ég að það væri þjóðráð fyrir King James að leggja spilin á borðið og framkvæma allt sem hann fullyrðir að hann geti gert, ef hann langaði til… eða hætta að tjá sig um það. Orð fá minna og minna vægi eftir því sem þau heyrast oftar og ekkert stendur undir þeim.
Fréttir
- Auglýsing -