spot_img
HomeFréttirLoks fann Hamar sigur gegn KR

Loks fann Hamar sigur gegn KR

Nýliðar Hamars komust í kvöld upp í 5. sæti Domino´s deildar kvenna með stórum og öruggum 68-85 sigri á KR í DHL Höllinni. Markmiðið um þátttöku í úrslitakeppninni er vissulega á lífi hjá báðum liðum en Hamar er fetinu nær og það er ekki síst að þakka frammistöðu örvhenta leikstjórnandans Chelsie Alexa Schweers. Chelsie setti persónulegt stigamet í íslensku úrvalsdeildinni í kvöld er hún skoraði 37 stig fyrir Hamar. Ebone Henry var stigahæst hjá KR með 24 stig. Hvergerðingar fögnuðu vel og innilega í leikslok enda fyrsti deildarsigur þeirra á KR þetta tímabilið en KR hafði unnið þrjár fyrri viðureignirnar og hafa því betur innbyrðis og það gæti heldur betur skipt sköpum þegar kemur að því að raða í úrslitakeppnina.
 
 
KR er nú í 6. sæti deildarinnar með 18 stig, Hamar í 5. sæti með 20 stig og Valur í 4. sæti með 22 stig en barátta þessara þriggja liða um fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni verður ansi lífleg næstu vikur.
 
Hvergerðingar gerðu níu fyrstu stig sín úr þriggja stiga skotum og voru hvergi bangnar í upphafi leiks. Þéttur varnarleikur gestanna skilaði þeim einnig 18-24 forystu að loknum fyrsta leikhluta. Sigrún Ámundadóttir minnkaði muninn í 18-24 fyrir KR með glæsilegri hreyfingu á blokkinni þegar nokkrar sekúndur lifðu af fyrsta leikhluta.
 
Röndóttar byrjuðu vel í öðrum leikhluta, tveir þristar strax í upphafi leikhlutans og í tvígang með skömmu millibili skoraði Ebone Henry og fékk villu að auki, í síðara skiptið jafnaði hún leikinn í 35-35. Hvergerðingar undir styrkri stjórn Chelsie Schweers settu við þetta upp sýningu, lokuðu fyrri hálfleik með 2-15 dembu þar sem Schweers raðaði niður hverjum þristinum á fætur öðrum. Schweers stóð hreinlega í ljósum logum og skoraði 25 stig í fyrri hálfleik þar sem Hvergerðingar leiddu 37-50. Schweers var heldur ekkert með dapra nýtingu gott fólk, 5-6 í teignum og 5-6 í þriggja stiga, ekki amalegt það.
 
Sigrún Ámundadóttir og Ebone Henry voru báðar með 11 stig hjá KR í hálfleik en röndóttar höfðu fengið yfir sig 10 þrista í fyrri hálfleik og úr því varð að bæta.
 
KR-ingar byrjuðu á því að minnka muninn í níu stig í síðari hálfleik en rétt eins og í öðrum leikhluta var áhlaup þeirra skammlíft því Hamarskonur voru við stýrið. Ebone Henry var setti til höfuðs Schweers sem gerði „bara“ 10 stig í leikhlutanum og þá var Marín Laufey Davíðsdóttir að standa vel fyrir sínu, komin með 15 fráköst eftir 30 mínútur og barðist sem fyrr af miklum þrótti. Íris Ásgeirsdóttir skellti niður ellefta þrist Hamars í leiknum og jók muninn í 51-65 og Hamar leiddi svo 51-68 að loknum þriðja leikhluta. Sigrún og Ebone voru sem fyrr að draga KR vagninn og vantaði röndóttar sárlega fjölbreyttara framlag.
 
Fjórði leikhluti var jafnasti leikhlutinn í kvöld enda fór hann 17-17. Fyrir vikið varð hann aldrei spennandi þar sem Hamar hafði 17 stiga forystu eftir þrjá leikhluta. Munurinn var kominn upp í 20 stig þegar sex mínútur lifðu leiks og lokatölur 68-85.
 
Hamar er það lið sem skorað hefur flestar þriggja stiga körfur í einum deildarleik á tímabilinu eða 16 talsins, í kvöld urðu þristarnir 14 í 29 tilraunum og þriggja stiga nýtingin því 48% eða heilum átta prósentum betri en teignýtingin. Ásamt Schweers átti Íris Ásgeirsdóttir flottan dag með 20 stig og 8 fráköst og Marín Laufey Davíðsdóttir var með sterka tvennu í 12 stigum og 17 fráköstum. Hjá KR var Ebone Henry með 24 stig og Sigrún Ámundadóttir með 18. Helga Einarsdóttir stimplaði sig inn með seinni skipunum og skoraði 11 stig. KR hefði mögulega geta fengið eitthvað úr leiknum í kvöld en þær misstu snemma tökin á Schweers sem stýrði Hamarsliðinu af festu og var stórhættuleg fyrir utan.
 
 
Viðtal við Írisi Ásgeirsdóttir leikmann Hamars
  
Fréttir
- Auglýsing -