spot_img
HomeFréttirÞórsarar með sterkan sigur í Glacial höllinni

Þórsarar með sterkan sigur í Glacial höllinni

Það var haldinn æsispennandi leikur í Glacial höllinni í kvöld þar sem Valur heimsótti Þór frá Þorlákshöfn. Leikurinn var dæmdur af Kristinni Óskarssyni, Einari Þór Skarphéðinssyni og Georg Andersen og stóðu þeir sig með sóma. Leikmannahópar beggja liða voru virkilega lemstraðir. Gunnlaugur Elsuson, Benedikt Skúlason, Þorgrímur Björnsson og Kristinn Ólafsson allir meiddir. Einnig gat Hlynur Víkingsson ekki spilað vegna veikinda. Í liði Þórs vantaði Mike Cook og sjálfan fyrirliðan Baldur Þór Ragnarsson sökum leikbanns. Þorsteinn Már Ragnarsson var tæpur fyrir leik en beit á jaxlinn og spilaði.
 
 
Leikurinn fór fjörlega af stað og skiptust bæði lið á að skora í gríð og erg. Þórsarar byrjuðu þó betur á fyrst umetrunum og voru það mennirnir sem komu inn í byrjunarliðið fyrir Baldur og Mike, þeir Halldór Garðar og Emil Karel sem fóru fyrir sínum mönnum á fyrstu metrunum. Stóru mennirnir, Ragnar Nathanaelsson og Birgir Pétursson, létu hvorn annan finna fyrir sér frá fyrstu mínútu. Eftir hálfan fyrsta leikhluta gáfu þá gestirnir í og komust yfir. Valur var sterkari aðilinn í fyrsta leikhluta en Þorsteinn Már náði að klóra í bakkann á lokasekúndu leikhlutans með skemmtilegu einstaklings framtaki. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 29-26 gestunum í vil.
 
Valsmenn komu svo mun ákveðnari til leiks í öðrum leikhlutanum og juku forskotið enn meira. Leikmenn Þórs voru á hælunum og var andleysi yfir leikmönnum Þórs. Valsmenn komust 14 stigum yfir þegar að tvær mínútur voru eftir af hálfleiknum en Þórsarar náðu að laga stöðuna örlítið fyrir lok hálfleiksins. Staðan var svo 37-47 í hálfleik.
 
Þórsarar mættu svo brjálaðir í seinni hálfleik þar sem Tómas Tómasson fór á kostum. Guð má vita hvort að það hafi verið ræðan hjá Benna í hálfleik, stuðningurinn frá Fjallinu, Baldri Þór, úr stúkunni eða hvort að hann vildi bara sýna kærustinni sinni sem sat í stúkunni að hann væri aðal maðurinn á sjálfan Valentínusardaginn. Það gjörsamlega kviknaði í drengnum og skorði hann 18 stig í leikhlutanum. Valsarar áttu engin svör við ákveðnum leik Þórsarara og unnu Þórsarar leikhlutann 34-17.
 
Fyrir síðasta leikhlutann var staðan 71-64 Þórsurum í vil. Valsmenn voru heldur betur ekki búnir að gefast upp og unnu sig inni í leikinn á ný. Oddur Ólafsson, Hvergerðingurinn knái, setti niður risastóran þrist þegar að ein og hálf mínúta var eftir af leiknum og kom muninum niðuri í tvö stig, 86-84. Var þá brotið á Þorsteini og fór hann á línuna en klúðraði báðum vítunum fyrir Þór. Fór svo Oddur á línuna hinu megin en geigaði einnig á báðum vítaskotum þegar að mínúta var eftir. Þegar að rúmlega hálf mínúta var eftir að leiknum tók Raggi Nat sterkt sóknarfrákast og skoraði í kjölfarið þrátt fyrir að Birgir braut á honum. Hitti hann þó ekki úr vítaskotinu en staðan var þarna 88-84. Ragnar hélt áfram að vera rosalegur á lokasprettinum og varði skot Odds Ólafs og brutu svo Valsmenn á Tómasi og fór hann á línuna. Setti hann niður fyrra vítaskotið en klikkaði á því seinna. Hver annar en Ragnar tók svo sóknarfrákastið og kláraði leikinn með að skora viðastöðulaust. Leikurinn endaði 91-84 Þór í vil.
 
Hjá Þór var Tómas stigahæstur með 28 stig og 4 stolna bolta, Ragnar 20 stig og 18 fráköst, Halldór var með 13 stig, Emil 12 stig, Sovic 10 stig og Þorsteinn 8 stig.
Hjá Val var Chris Woods með 26 stig og 14 fráköst, Oddur Birnir 15 stig, Oddur Ólafs 12 stig, Birgir 12 stig og aðrir minna.
 
 
Umfjöllun: Vignir Fannar Víkingsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -