spot_img
HomeFréttirÖrugg stig í hús Þórsara

Örugg stig í hús Þórsara

Það var fremur óvenjulegt kvöld í Síðuskóla þegar að Þórsarar mættu Vængjum Júpiters í 14. umferð 1. deildar karla. Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en smá saman silgdu heimamenn fram úr og uppskáru að lokum auðveldan 80 – 64 sigur í frekar bragðdaufum leik. Eitthvað sem áhorfendur í Síðuskóla eru orðnir óvanir enda hefur hver spennutryllirinn fylgt á eftir öðrum í Síðuskóla i vetur. Það var því ekki von að einhverjir hafi brugðið á það ráð að fylgjast með öðrum leikjum í gegnum síma til að viðhalda spennu sem myndast í Síðuskóla.
 
 
Bjarki Ármann Oddsson þjálfari Þórs gaf tóninn strax í upphafi leiks þegar hann gjörbreytti byrjunarliði sínu frá síðustu leikjum og gaf minni spámönnum eins og Arnóri Jónssyni, Einari Ómar og Reinis Bigacs tækifæri í byrjunarliðinu. Nokkuð ljóst að Bjarki ætlaði að nota tækifærið og leyfa öllum sínum leikmönnum að spila. Eitthvað fóru þessar breytingar skringilega í heimamenn því að gestirnir skoruðu fyrstu fjögur stig leiksins. Einar Ómar var þó sá eini sem virtist vera vakandi á upphafmínútunum hjá heimamönnum en hann skoraði 6 fyrstu stig Þórsara.
 
Vængir Júpiters virtust vera í ágætis stuði í 1. leikhluta og voru lengi vel skrefi á undan heimamönnum. Gestirnir náðu 6 stiga forystu um miðbik leikhlutarins, 13 – 19 og var þetta þeirra mesta forysta í leiknum. Heimamenn náðu þó að laga stöðuna í lok fjórðungins og náðu forystunni áður en leikhlutinn var búinn, 22 – 20.
 
Áhorfendur í Síðuskóla var ekki á sama, enda bjuggust margir við léttari leik. Kannski blundaði smá vanmat í kollinum hjá heimamönnum í upphafi leiks. ,,Við slökuðum aðeins of mikið á [í byrjun leiks]. Getur verið [að leikmenn hafi verið of góðir með sig]. Svo skiptir hann gamla byrjunarliðinu inn á og þá kemur krafturinn i þetta og við náðum þessu örlítið betur í hendur okkar og náðum að klára þetta með góðu spili og kannski ágætri vörn”. Rifjaði Einar Ómar Eyjólfsson upp í leikslok.
 
Það var einmitt þegar að mikilvægustu leikmenn Þórs byrjuðu að koma inn í 2. leikhluta að hlutirnir fóru að gerast hjá heimamönnum. Elías Kristjánsson fór fyrir Þórsara með 8 stig í leikhlutanum og var aðal kveikjan að 18 – 2 spretti heimamanna. Vörnin varð betri sem leiddi að sér auðveldari stig og skyndilega voru heimamenn komnir með 20 stiga forskot, 42 – 22. Gestirnir neituðu þó að gefast upp og náðu að koma með 10 – 2 sprett og minnkuðu mun heimamanna niður í 12 stig, 44 – 32 fyrir hálfleik.
 
,,Gaman að geta róterað öllum. Þetta var í raun aldrei í hættu. Allir fengu að spila og það eru margir leikmenn sem leggja hart að sér í liðinu sem fá kannski ekki rosalega margar mínútur en þetta var kannski þeirra tími”, sagði Bjarki við fréttaritara í leikslok. Það var þó ekki bara Bjarki sem var dulegur við að skipta inn á heldur voru báðir þjálfarar dugleg að gefa öllum leikmönnum sínum tækifæri. Allar þessar breytingar á báðum liðum höfðu þau áhrif að leikurinn náðu engu flugi. Fyrri hálfleikur var skömminni skárri en síðari hálfleikur sem var ekkert sérstaklega spennandi að horfa á. Heimamenn héldu sínu 10 – 15 stiga forskoti á gestina. Það kannski segir lýsir síðari hálfleik vel að þjálfari Þórs fylgdist ágætlega með öðrum leikjum í símanum sinum heldur en leiknum sjálfum: ,,um miðbik þriðja leikhluta þá fannst mér gaman að horfa á simann minn. Ég var að fylgjast með Breiðablik – Fjölnir”. Viðurkenndi Bjarki í kímni.
 
Saga þriðjaleikhluta var þannig í hnotskurn að Þórsarar keyrðu upp hraðan í nokkrar mínútur, byggðu upp sitt 15 – 20 stiga forskoti, misstu síðan einbeitinguna í smá stund og hleyptu gestunum örlítið nær sér; þó aldrei það nálægt sér að forustan hafi verið í hættu. Eftir þriðja leikhluta leiddu Þórsarar leikinn, 60 – 46 og einungis spurning um hversu stór sigurinn yrði.
 
Hrósa verður þó gestunum fyrir mikla baráttu. Þó að brekkan hafi allan leikinn verið brött þá reyndu þeir að klóra í bakkann eins og hægt var. Með þá kumpána, Jón Rúnar (15 stig), Brynjar Þór (14 stig) og Hörð Lárusson (12 stig) í fararbroddi reyndu gestirnir eitt loka áhlaup undir lok 4. leikhluta. Því miður fyrir gestina þá nægði barátta þeirra ekki í lok leiks og heimamenn fögnuðu þvi öruggum 80 – 64 sigri.
 
Erfitt er að skrifa mikið um leikinn sem náði sér aldrei á strik. Leikurinn var kjörið tækifæri fyrir Bjarka Oddsson að hvíla leikmenn á borð við Jarrell, Ólaf Aron, Svein Blöndal og Ella fyrir komandi átök. Það má heldur ekki gleyma mikilvægi þess að gefa yngri og reynslu minni leikmönnum smjörþefinn af deildinni. Eins og Bjarki Ármann benti á í leikslok ,,þá varð það mikilvægt fyrir okkur að leyfa Reinis að spila, Arnór að komast meira inn i þetta, Danni fekk mikilvægar mínútur sem og Palli. Þetta var bara flott hjá þeim”. Það var einmitt gaman að sjá Daníel Halldórsson koma inn í liðið óhræddur og skora sín fyrstu stig fyrir meistaraflokk í kvöld. Jafnframt var gaman að sjá Arnór, Pál og Reinis fá að spila meir en 10 mínútur i kvöld. Atkvæðamestir í liðinu voru þó Elías Kristjánsson með 14 stig, Einar Ómar Eyjólfsson með 13 og Sindri Davíðsson með 13 stig.
 
Hjá gestunum voru það þeir Jón Rúnar Arnarsson (15 stig), Hörður Lárusson (12 stig) og Brynjar Þór Kristófersson (14 stig) atkvæðamestir. Aðrir leikmenn voru að skila minna í kvöld. Það sást þó bersýnilega að þrátt fyrir mikla baráttu gestanna, þá voru þeir einfaldlega númeri of litlir fyrir heimamenn.
 
 
Umfjöllun – Sölmundur Karl Pálsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -