spot_img
HomeFréttirSóknarleikur á Egilsstöðum

Sóknarleikur á Egilsstöðum

Höttur vann mikilvægan sigur á ÍA á Egilsstöðum í gærkvöldi. Með sigrinum komst lið Hattar í þriðja sæti deildarinnar eftir að Fjölnir tapaði naumt gegn Breiðablik í Kópavogi, 102 – 101.
 
 
Leikurinn var allan tímann mjög hraður en heimamenn mættu mun ákveðnari til leiks og var ekki að sjá annað en að Héraðsmenn hefðu tekið sig duglega saman í andlitinu eftir lánlausan og slakan leik fyrir viku síðan í Hveragerði. Skagamenn áttu í miklum erfiðleikum með Gerrard Robinson sem var sterkur undir körfunni og hitti einnig mjög vel fyrir utan. Eftir sjö mínútna leik var staðan 26 – 15 fyrir Hött og keyrðu Hattarmenn þá grimmir á vörn Skagamanna, létu boltann ganga vel og fengu opin skot nokkuð auðveldlega gegn slakri svæðisvörn gestanna. Andrés Kristleifsson skellti tveim þristum í röð og breytti stöðunni í 32- 15 og lið Hattar skoraði nánast í hverri sókn út leikhlutann og staðan í lok 1. leikhluta, 39- 23 fyrir Hött.
 
Höttur hélt uppteknum hætti í 2. leikhluta. Viðar Örn Hafsteinsson, spilandi þjálfari Hattar, átti góða innkomu í liðið og setti niður tvo þrista á skömmum tíma þegar hann kom Hetti í 51- 31. Liðin héldu áfram að spila mjög hraðan körfuknattleik og skiptust á að skora gegn slökum varnarleik beggja liða.
Staðan í hálfleik 66 – 46, Hetti í vil.
 
Í síðari hálfleik virtust Hattarmenn ætla að bæta varnarleik sinn og gerðu það á köflum en kæruleysislegur varnarleikur gerði það að verkum að Höttur náði aldrei að afgreiða Skagamenn algerlega enda gáfust Skagamenn aldrei upp þrátt fyrir mjög öflugan sóknarleik og mikla baráttu heimamanna. Munaði þar mestu um Zachary Jamarco Warren og Áskel Jónsson sem skiptu sköpum fyrir ÍA og áttu fína spretti. Zachary Warren virtist á tímabilum í leiknum vera óstöðvandi en það kom ekki að sök fyrir Hött þar sem gestirnir áttu engin svör gegn frábærum sóknarleik heimamanna. Allir leikmenn Hattar komu við sögu í leiknum og skiluðu sínu vel á meðan þreyta var farin að láta á sjá hjá Skagamönnum þegar leið á 3. Leikhluta, en þeir mættu með átta leikmenn austur. Staðan eftir 3. leikhluta var 91- 66.
 
4. leikhluti einkenndist af mikilli skotsýningu og var Gerrard Robinson áberandi fyrir Hött en hann fór mjög mikinn bæði innan sem utan teigs. Zachary Warren svaraði hinsvegar oftar en ekki með þrist á hinum enda leikvallarins. Staðan eftir tveggja mínútna leik var 100 – 73. Varnarleikurinn var í algjöru aukahlutverki síðustu mínútur leiksins og liðin skiptust á hröðum sóknarleik og þriggja stiga sýningu.
 
Leiknum lauk með sigri Hattar 130 – 101 og skoruðu liðin samtals 71 stig í fjórða leikhluta. Höttur var með 58% skotnýtingu fyrir utan 3ja stiga línuna en þeir hittu úr 22 skotum úr 38 tilraunum.
 
Gott svar við bakslagi síðustu viku
Viðar Örn Hafsteinsson, spilandi þjálfari Hattar, var að vonum ánægður í leikslok. „Þetta var mjög góður sigur hjá okkur og sérstaklega mikilvægur eftir að Fjölnir tapaði sínum leik gegn Breiðablik. Við vorum mjög góðir sóknarlega, létum boltann ganga vel og fengum fín opin skot sem við nýttum vel. Skotnýting liðsins var sérstaklega ánægjuleg en varnarleikurinn var full kærulaus á köflum. En ÍA er með gott lið og Zachary Warren er illviðráðanlegur“ sagði Viðar eftir leik. Hann sagðist hafa lagt upp með að keyra upp hraðann í leiknum og það gekk eftir. „Allir skiluðu sínu mjög vel í þessum leik og ungu strákarnir okkar áttu mjög góða innkomu í leiknum og ég er því mjög ánægður. Þetta var mjög gott svar við bakslaginu í síðustu viku en við vorum mjög slakir gegn Hamri.“
 
Hjá Hetti var Austin Magnus Bracey maður leiksins en hann skoraði 30 stig í leiknum, gaf 12 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Gerrard Robinson átti einnig mjög góðan leik en hann skoraði 44 stig og tók 10 fráköst. Eysteinn Ævarsson var einnig mjög góður hjá Hetti en hann skoraði 20 stig í leiknum. Andrés Kristleifsson skilaði sínu vel, barðist allan tímann og skilaði 13 stigum og 7 stoðsendingum. Þá átti Viðar Örn Hafsteinsson mjög fínar innkomur í leiknum.
 
Hjá ÍA var Zachary Jamarco Warren potturinn og pannan í sóknarleiknum og dró vagninn fyrir gestina. Hann var stórkostlegur á köflum, skoraði 45 stig og gaf 7 stoðsendingar. Áskell Jónsson skoraði 29 stig í leiknum, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.
 
 
Umfjöllun og mynd/ Ragnar Sigurðsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -