Njarðvík og KR mættust í Dominosdeild kvenna í kvöld og úr varð hörku leikur með öllu tilheyrandi. KR hafði harma að hefna frá síðustu viðureign liðanna þar sem að Njarðvíkurkonur sóttu sigur í DHL höllina. En Njarðvíkurstúlkur virðast vera með tonnatak á KR þessa dagana því í kvöld sigruðu þær grænklæddu 74:67 í framlengdum leik eftir jafnt hafði verið eftir venjulegan leiktíma 63:63.
Leikurinn var hnífjafn framan af og það var aðeins í öðrum leikhluta sem að KR virtust vera að koma sér á beinu brautina þegar þær komust í 7 stiga forystu. En seigla og barátta í liði Njarðvíkur leyfði það ekki og voru þær fljótar að jafna leikinn út. Aðeins 1 stig skildi liðin frá í hálfleik þar sem að gestirnir leiddu 37:38. Sama hörku barátta hélt áfram í seinni hálfleik og eftir því sem meira leið á var orðið augljóst að úrslit leiksins myndu ekki ráðast fyrr en á síðustu augnablikunum. MIkil taugaspenna var á loka mínútum leiksins. Þegar 2 mínútur heilar voru eftir leiddu KR með 4 stigum, 59:63. Nikitta Gartrell setti niður tvö stig og minnkaði muninn og það var svo Salbjörg Sævarsdóttir sem að setti niður síðustu tvö stig venjulegs leiktíma þegar 13 sekúndur voru eftir. KR fengu tvö skot til að klára leikinn í venjulegum leiktíma en Bergþóra Holton og Ebone Henry brást báðum bogalistinn.
Í framlengingunni fór líkt og í þeim flestum. Liðið sem kom sér í framlenginguna tók forystuna og hélt henni til loka leiks. Má segja að risa þristur frá Ínu Maríu Einarsdóttir hafi rekið síðasta nagla í kistu KR þegar um 20 sekúndur voru til loka leiks.
Nikitta Gartrell var sem áður stigahæst Njarðvíkurkvenna með 24 stig en næst henni kom Guðlaug Júlíusdóttir með 16 stig. Hjá KR var Ebone Henry sem setti niður 21 stig og næst henni kom svo Bergþóra Holton með 16 stig.



