spot_img
HomeFréttirUmbreyting ÍR-inga eftir áramót

Umbreyting ÍR-inga eftir áramót

Í nóvember sl. benti ég á hræðilegan varnarleik ÍR liðsins í fyrstu sex leikjum þess í Dominosdeildinni á þessari leiktíð. ÍR-ingar voru í neðsta sæti í öllum tölfræðiþáttum sem fyrir fundust yfir varnarleik liða í deildinni.
 
ÍR-ingar hafa verið óheppnir með erlenda leikmenn og því miður fyrir lið sem eru með unga og óreynda leikmenn í sínum röðum þurfa oft að treysta of mikið á framlag frá þeim. Í janúar duttu þeir hins vegar í lukkupottinn þegar Njarðvíkingar ákváðu að losa sig við Nigel Moore og Örvar Kristjánsson, þjálfari ÍR ekki lengi að grípa tækifærið.
 
Moore hefur haft víðtæk áhrif á leik ÍR liðsins. Framlag hans sést ekki alltaf á tölfræðiblaðinu en krafturinn frá honum hefur smitað liðið allt og það er að sjást á varnarleiknum þeirra. Hjalti Friðriksson er einnig orðinn löggild ógn í sóknarleiknum og hefur PER gildið hans hoppað úr 7,7 í 10,8.
 
ÍR-ingar eru að skora meira (PPG 90,7), skora meira í hverri sókn (PPP 1,118) og þeir eru að nýta sóknirnar sínar mun betur en áður (48,9%). Þeir eru einnig að skjóta betur.
 
Í vörn eru þeir að fá á sig færri stig (PPG 88,9), andstæðingar þeirra eru að skora minna í hverri sókn (PPP 1,111) og nýta sóknir sínar mun verr en áður (48,7%). Ástæðan fyrir því að stig per sókn lækkar ekki meira er sú að leikhraðinn er einnig að minnka niður um tvær sóknir að meðaltali.
 
 
Andstæðingar ÍR eru þó að skjóta mun betur sbr. skotnýtingu þeirra eftir áramót. Sú staðreynd skýtur dálítið skökku við samanborið við það sem kemur fram hér að ofan. Staðreyndir er hins vegar einnig sú að ÍR-ingar fá á sig mun færri skot en áður (69,7 á móti 74,4 fyrir áramót), sem kemur heim og saman við tölur andstæðinga um sóknarnýtingu.
 
ÍR-ingar eru að hirða færri fráköst (33,0 á móti 37,5) en áður en það er andstæðingarnir líka (41,3 á móti 42,6), stela fleiri boltum (9,3 á móti 6,1) og andstæðingarnir að tapa mun fleiri boltum í leik (15,3 á móti 10,9).
 
Nigel Moore virðist vera bjargvættur ÍR-inga þó tölurnar hans sjálfs séu ekki að sýna það endilega. ÍR-ingar þurfa nefnilega einhvern sem er tilbúinn að fórna sér í verkið, fleygja sér í gólfið á eftir lausum boltum en ekki tékka hárið og hvort skórnir séu rispaðir. ÍR liðið er, og hefur verið í allt of langan tíma, nett kókópöffs lið sem vantar allt ghettó í þrátt fyrir að representa Breiðholt.
 
Það er vonandi að vaxa pungur á ÍR-inga og hár á bringunni og mjög tímanlega því það er nákvæmlega það sem þeir þurfa þegar þeir mæta bikarsveltum Grindvíkingum í Höllinni um helgina.
Fréttir
- Auglýsing -