Í kvöld í Grindavík áttust við Grindavík og Njarðvík. Þessi lið hafa verið í botnbaráttunni í vetur og í síðustu umferð varð það ljóst að það yrði hlutverk Njarðvíkur að spila í 1.deild að ári. Því var spilað upp á stoltið í dag. Bæði lið byrjuðu af krafti í kvöld en þó var Grindavík einu skrefi á undan Njarðvíkurliðinu í upphafi en í lok leikhlutans náði Guðlaug Björt Júlíusdóttir að minnka muninn í 2 stig með góðri körfu og fékk vítaskot að auki er hún setti niður. Staðan eftir 1. leikhluta var 24-22 fyrir heimastúlkum.
Njarðvík skoraði fyrstu 9 stigin í öðrum leikhluta og voru komin með 7 stiga forustu. Eftir það var Njarðvík komið í bílstjórasætið og Grindavík elti. Njarðvík átti frábæran leikhluta og héldu Grindavík í 11 stigum og settu sjálfar 25 stig og staðan í hálfleik 35-47 fyrir Njarðvík.
Grindavíkurstúlkur hafa greinilega fengið góða hálfleiksræðu því allt annað var að sjá til liðsins í 3ja leikhluta en þrátt fyrir meiri baráttu þá náðu Njarðvíkurstelpur að verja forskotið og leiddu með 10 stigum, 56-66, eftir þriðja leikhluta. Grindavíkurstelpur byrjuðu fjórða leikhluta vel þar sem Jeanne Sicat skoraði 4 stig í röð og Harpa Hallgrímsdóttir bætti við 2 stigum á stuttum tíma og minnkuðu muninn í 62-66 og leit allt út fyrir spennandi endasprett. Næstu mínúturnar áttu bæði lið margar misheppnaðar tilraunir til að skora en Njarðvíkurstelpur voru fljótari að finna körfuna og breyttu stöðunni úr 62-66 í 62-73 og eftir það var ljóst hvernig leikurinn færi og í lok leiks fengu ungar stelpur í báðum liðum að spreyta sig.
Njarðvíkurstelpur sýndu í kvöld að það verður missir af þeim í Dominos-deildinni að ári, þarna eru margir flottir leikmenn og þær berjast í hverjum einasta leik. Grindavík náði ekki að fylgja eftir góðum sigrum á Val og Hamar og vantaði betri einbeitingu í þeirra leik.
Hjá Njarðvík áttu Andrea Björt Ólafsdóttir (15 stig, 7 fráköst) og Guðlaug Björt Júlíusdóttir (14 stig, 10 fráköst) virkilega góðan leik og barátta þeirra smitaði aðra leikmenn. Nikitta Gartell komst einnig vel frá sínu (21 stig, 9 fráköst , 8 stoðsendingar) og Ína María Einarsdóttir setti niður stór skot og endaði með 11 stig.
Hjá Grindavík var Jeanne Sicat (10 stig, 3 stoðsendingar) og Harpa Hallgrímsdóttir (4 stig, 7 fráköst) að berjast vel og spila af eðlilegri getu en aðrir leikmenn eiga meira inni. Stigahæstar voru Crystal Smith með 15 stig (8 stolna og 7 fráköst), María Ben Erlingsdóttir með 15 stig og Pálína Gunnlaugsdóttir með 14 stig.



