Sverrir Þór Sverrisson mun ekki halda áfram með kvennalandslið Íslands. Þetta kom fram á vef Vísis nú í morgun. Þar greinir Sverrir frá því að KKÍ hafi “boðið” honum starfið sem hann hélt að hann væri nú þegar að sinna. ,,Þetta var þriggja ára samningur með ákvæði um að síðasta árið yrði framlenging á honum ef ánægja væri með mín störf,” sagði Sverrir í samtali við Karfan.is
,,Hannes formaður ítrekaði að það væri ánægja með mín störf og að afreksnefnd vildi samt tékka á öðrum möguleikum. Eftir Smáþjóðaleikana sögðu þeir að þeim fyndist frábært að sjá hveru mikill metnaður og vilji væri í liðinu og þeir ætluðu að gera allt sem þeir gætu til að fá fleiri verkefnið fyrir landsliðið,” bætti Sverrir við í samtali.
,,Mér finnst ekki rétt að athuga aðra möguleika ef það gengur vel og þeir eru ánægðir með mín störf og ég enn á samningi.”
En er ekki erfitt fyrir þjálfara karlaliðs í efstu deild að vera að þjálfa kvennalandsliðið þar sem að líklega er erfitt fyrir þig að komast á leiki í kvennadeildinni sökum anna við æfingar hjá þínu félagsliði?
,,Ég sé einn leik í hverri umferð. Ég er ekki að þjálfa þegar kennaleikirnir fara fram. Ég hef meira segja fengið jákvæð viðbrögð við því hversu marga leiki ég er að fara á, en ég reyni að fara á sem flesta til að vera sem best inní hlutunum,” sagði Sverrir og bætti við. ,,Ég vona bara að verði meiri fagmennska yfir þessum málum í framtíðinni.”
Karfan.is vonast til að heyra í Hannes formanni fljótlega varðandi þessi mál.



