spot_img
HomeFréttirKR bikarmeistari í Drengjaflokki (UPPFÆRT)

KR bikarmeistari í Drengjaflokki (UPPFÆRT)

 KR varð bikarmeistari í dag í síðasta bikarleik yngriflokka helgarinnar. KR sigraði Hauka í háspennuleik sem réðst á loka sekúndunum. Kári Jónsson setti niður þrist þegar 4 sekúndur voru til loka leiks og minnkaði muninn niður í 1 stig.  En það var svo Oddur Kristjánsson sem var svellkaldur á vítalínunni og jarðaði tvö niður og sá svo um að stela boltanum í síðustu sókn þeirra Hauka og þar með 77:80 sigur KR tryggður.  Oddur Kristjánsson var svo valin maður leiksins. 
 
 
Leikur Hauka og KR í drengjaflokki var frábær skemmtun og góður endapunktur á skemmtilegri bikarúrslitahelgi yngri flokka í Grindavík. Hugi Hólm miðherji KR tók út leikbann í þessum úrslitaleik, fyrir að mörgum fannst litlar sakir í leik KR gegn Grindavík nýverið. Þessi bikarúrslita leikur var fjörugur og kaflaskiptur en þó alldrei mikill munur á liðunum. Eftir æsispennandi lokamínútur stóðu KR uppi sem bikarmeistarar eftir að hafa unnið þriggja stiga sigur 80–77.
 
1. Leikhluti.
Nokkurs taugatitrings gætti hjá báðum liðum á upphafsmínútum leiksins en Haukar byrjuðu þó af heldur meiri krafti. Lítið var skorað fyrstu mínúturnar og staðan var 4:0 fyrir Hauka þegar 4 mínútur voru liðnar af leikhlutanum en þá hafði KR misnotað fjögur fyrstu vítaskot sín. Eftir 5 mín leik var staðan orðin 11:0 fyrir Hauka en stuttu áður kom Oddur Kristjáns inn á í fyrsta sinn fyrir KR og átti heldur betur eftir að hafa áhrif á gang leiksins. KR virtust fá aukið sjálfstraust með innkomu Odds og ógnunin í sókninni var meiri. Það hafði einnig mikil áhrif að þegar tæpar sex mínútur voru liðnar af leiknum fékk Kristján Sverrisson sína þriðju villu en hann hafði verið öflugur í vörn Haukamanna fram að því. KR náðu að rétta sinn hlut og komust yfir í lok leikhlutans 19-22 með þriggja stiga körfu frá Oddi.
2. Leikhluti
Í byrjun 2. leikhlutans hitti Kári Jónsson úr fyrsta þrigja stiga skoti sínu en nokkur slík höfðu geigað fram að því , en Kári hafði bætt það upp með nokkrum sterkum gegnumbrotum sem skiluðu körfum. Oddur var atkvæðamestur hjá KR hvað skorun varðaði en Þorgeir Blöndal barðist eins og ljón allan fyrri hálfleikinn og áttu Haukamenn í töluverðum vandræðum að halda honum frá sóknarfráköstunum sem tryggðu KR þónokkur aukatækifæri á að skora. Kári Jónsson var iðin við kolann Haukameginn. Haukar náðu með mikilli baráttu að rétta sinn hlut þó Kristján væri hvíldur með sínar þrjár villur og leiddu í hálfleik 35-34. Kári Jónsson var kominn með 17 stig fyrir Hauka en Oddur Kristjánsson með 12 stig fyrir KR.
3. Leikhluti
Hukar höfðu farið í svæðisvörn í öðrum leikhluta og héldu henni áfram í byrjun seinni hálfleiks þegar Kristján Sverrisson var kominn á parketið að nýju eftir langa hvíld. Oddi Kristjánssyni leiddist það ekki enda fékk hann of oft opin skot framan í leiklutanum og þakkaði pent fyrir sig með nokkrum þriggja stiga körfum. Kári Jónsson var sem fyrr drjúgur fyrir Hauka og sérstaklega í gegnumbrotunum en Kristjáni virtista ganga erfiðlega að komast á skrið eftir langa bekkjarsetu. Liðin skiptust á að taka forystuna allt þar til staðan var 45-45 fyrir Hauka og 4 mínútur eftir af leikhlutanum. Það sem eftir leið leikhlutans negldi Oddur þrjár þriggja stiga körfur niður og Högni bætti sniðskoti við sem tryggði KR 47-56 forystu þegar flautað var til loka þriðja leikhluta. Haukar voru ekki að hitta vel fyrir utan þriggja stia línuna og hefðu mátt sækja meira að körfunni og nýta sér fjarveru Huga undir körfunni.
4 leikhluti.
 
 
Ívar þjálfari Hauka tók á það ráð að setja „frakka“ á Odd Kristjáns og freista þess að láta hann hafa vel fyrir öllum körfum enda Oddur kominn með 26 stig eftir fyrstu þrjá leikhlutana. Herbragðið heppnaðist ágætlega og Oddur skoraði ekki stig fyrstu 8 mínútrnar í fjórða leikhluta. Á sama tíma voru leikfléttur Hauka að skila nokkrum auðveldum körfum og leikurinn að jafnast á ný. Þegar 6 mín voru til leiksloka kom Kári Jónsson muninum í aðeins eitt stig 60-61 með því að hitta úr tveimur vítaskotum. Næstu mínútur voru æsispennandi þar sem Kári og Hjálmar Stefánsson fóru fyrir Haukamönnum í stigaskoruninni en KR var að fá flott framlag sóknarlega frá fleiri strákum. Illugi Steingrímsson, Högni Fjalarsson, Vilhjálmur Jensson og Eyjólfur Halldórsson skoruðu mikilvægar körfur fyrir KR. Kári Jónsson jafnaði leikinn 68-68 með þriggja stiga körfu þegar 3 mínútur voru til leiksloka, Illugi svaraði fyrir KR með sniðskoti en Hjálmar jafnaði enn á ný fyrir Hauka 70-70 og 2:20 til leiksloka. Vilhjálmur kom KR aftur yfir en Kári jafnaði enn ný og 1:24 til leiksloka. Þegar KR var að leggja af stað í sókn var dæmd óíþróttamannsleg villa á Jón Ólaf Magnússon og Haukamenn ekki sáttir við að þann dóm, töldu hefðbundna villu vera sanngjarnari sem hefði aðeins skilað innkasti fyrir KR. Oddur seti niður bæði vítin og KR átti boltann að nýju. Oddur klikkaði á tveggja stiga skoti og Hjálmar náði varnarfrákastinu. Haukamenn bruna í sókn og brotið á Kára Jónssyni sem setur niður tvö vítaskot, jafnar leikinn 74-74 og 52 sek til leiksloka. Högni klikkaði síðan á skoti en Þorgeir var betri en enginn fyrir KR og náði sóknarfrákastinu, Þorgeir reyndi sjálfur mjög erfitt skot sem geigaði en KR voru heppnir því boltinn skoppaði af höfði Haukamanns útaf þegar 36 sek voru eftir. Eftir barning er brotið á Oddi sem setti bæði vítaskotin niður, 18 sek eftir og staðan 74-76 fyrir KR. Haukar komu boltanum í hendurnar á Kára sem náði ekki að sækja að körfunni en fann Hjálmar opinn í horninu. Hjámar tók þriggja stiga skot sem dansaði á hringnum en ofaní vildi boltinn ekki. Illugi náði varnarfrákastinu og brutu Haukamenn á honum þegar skammt var til leiksloka. Illugi nánast tryggði sigurinn með því að setja bæði vítin niður. Kári náði reyndar þriggja stiga körfu og Haukar brutu strax á Oddi sem setti bæði vítin örugglega niður en þá var var ekki nema 1,6 sek eftir sem dugði Haukum ekki til að jafna leikinn og KR því bikarmeistarar Drengjaflokks 2014.
Oddur Kristjásson með 32 stig og Kári Jónsson með 41 stig báru stigaskor sinna liða uppi en það sem gerði gæfumuninn var að Oddur fékk meiri hjálp frá sínum liðsfélögum. Fjórir leikmenn KR voru með meira en 10 stig á meðan Hjálmar var með 11 stig en aðrir minna hjá Haukum. Haukar hittu mjög illa fyrir utan þriggja stiga línuna eða 4 af 22 á meðan KR hittu úr 11 af 22 þriggja stiga skotum sínum. Að lokum er vert að nefna frábærrar baráttu Þorgeirs Blöndal fyrir KR en hann reif niður 18 fráköst, þar á meðal níu sóknarfráköst og sum hver á mikilvægum augnablikum í fjórða leikhluta.
 
 
 
 
 
Maður leiksins: Oddur Rúnar Kristjánsson
 
Byrjunarlið KR: 
Högni Fjalarsson
Friðrik Stefánsson
Þorgeir Blöndal
Illugi Steingrímsson
Vilhjálmur Jensson
 
Byrjunarlið Hauka
Kristján Sverrisson
Arnór Ívarsson
Hjálmar Stefánsson
Kári Jónsson
Jón Ólafur Magnússon
 
Fréttir
- Auglýsing -