Drekarnir frá Sundsvall unnu góðan útisigur á Borås Basket í sænsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í dag og var Hlynur Bæringsson stigahæstur hjá Sundsvall með 17 stig. Staðan í hálfleik var 39:31 fyrir Sundsvall en þegar yfir lauk hafði Sundsvall skorað 74 stig gegn 61 frá Boras.
Hlynur var með 17 stig og 8 fráköst, Jakob Sigurðarson gerði 13 stig og átti 6 stoðsendingar og Ægir Steinarsson gerði 3 stig, hitti úr öðru af tveimur þriggja stiga skotum sem hann tók. Sundsvall er í fjórða sæti með 40 stig, tveimur á eftir Norrköping.



