Seinasti heimaleikur meistaraflokks kvenna hjá Breiðablik átti sér stað í Smáranum kl.13:30 í dag. Þær tóku á móti stúlkunum í Þór Akureyri og unnu sannfærandi 83-35 sigur á þeim.
Leikurinn byrjaði heldur rólega en þó með yfirburðum Blikastelpna framan af. Þór Ak. stelpurnar virtust þó vera með góðan móral framan og fögnuðu körfunum sínum alveg jafn hátt og heimaliðið. Þó að Breiðablik var ávallt með örugga forystu virtist spil þeirra á köflum nokkuð kærulaust sem skilaði sér í nokkrum töpuðum boltum þar sem stelpurnar voru í raun að fleygja boltanum frá sér.
Blikar voru að rúlla á 5 manna skiptingum til að byrja með á meðan að Akureyrarstelpurnar höfðu úr 6 leikmönnum að moða. Þetta skilaði sér í því að 9 Blikastelpur voru búnar að skora stig á fyrstu 10 mínútunum. Staðan 26-8 í lok fyrsta leikhluta.
Fram til hálfleiks var áfram mikið um kæruleysi hjá Blikum en inn á milli voru sömuleiðis flottir tilburðir, m.a. aftur-fyrir-bak sending frá Jaleesu Butler á Helgu Hrund sem negldi þrist fyrir utan. Þegar liðin héldu inn í klefa í hálfleik voru Blikastelpur yfr með 22 stigum, 43-21.
Breiðablik byrjaði seinni hálfleikinn á 10-0 rispu sem kom þeim 32 stigum yfir Þórsurum. Jaleesa var mjög óeigingjörn og lét boltann ganga óspart þó að liðsfélagar hennar settu ekki alltaf niður skotin sín. Kópavogsstúlkurnar völtuðu yfir stelpurnar að norðan, bæði í stigaskori og í bókstaflegri merkingu þegar þær keyrðu niður Þórsarastelpurnar í nokkur skipti í þriðja leikhluta.
Við upphaf lokaleikhlutans var staðan 58-25 en Blikarnir slökuðu ekkert á. Þær héldu áfram að rúlla á mannskapnum og kláruðu leikinn 83-35.
Nú þegar deildarkeppninni er að fara að ljúka liggur fyrir að Breiðablik mun spila í úrslitakeppninni við Fjölni um hvort liðið öðlast rétt til að spila í úrvalsdeild kvenna á næsta leiktímabili. Enn er þó óráðið hvort liðið fær heimavallarréttinn, Fjölnir á þrjá leiki eftir óspilaða á meðan að Breiðablik á einungis einn eftir svo að Fjölnir getur enn nælt sér í heimavallarréttinn fyrir úrslitarimmuna. Það mun koma í ljós fljótlega.
Breiðablik: Helga Hrund Friðriksdóttir 15 stig/7 fráköst/5 stolnir boltar, Jaleesa Butler 12 stig/14 fráköst/4 stoðsendingar/3 stolnir boltar, Efemía Rún Sigurbjörnsdóttir 12 stig, Aníta Rún Árnadóttir 10 stig, Alexandra Sif Herleifsdóttir 8 stig/9 fráköst, Elín Kara Karlsdóttir 7 stig, Hafrún Erna Haraldsdóttir 5 stig/3 stoðsendingar, Berglind Karen Ingvarsdóttir 4 stig/6 stoðsendingar, Ísabella Ósk Sigurðardóttir 4 stig/10 fráköst, Kristín Óladóttir 4 stig, Guðrún Edda Bjarnadóttir 2 stig/4 stoðsendingar.
Þór Akureyri: Heiða Hlín Björnsdóttir 10 stig/3 stoðsendingar, Una Magnea Stefánsdóttir 9 stig, Gréta Rún Árnadóttir 6 stig, Helga Þórsdóttir 4 stig/9 fráköst/3 stoðsendingar/4 varin skot, Sædís Gunnarsdóttir 4 stig, Erna Rún Magnúsdóttir 2 stig/12 fráköst.
Blikastelpur hressar eftir góðan sigur.



