Í kvöld mættust lið Njarðvíkur og Vals í úrvalsdeild kvenna í Ljónagryfjunni. Leikurinn hafði enga þýðingu fyrir hvorugt liði og því spilað uppá stoltið. Njarðvíkurstúlkur voru þarna að spila sinn síðasta úrvalsdeildarleik að sinni í Ljónagryfjunni því þeir voru fyrir leik fallnar úr deildinni. Svo fór að Valskonur náðu að krafsa sigur í leiknum á loka sprettinum en það voru Njarðvíkurkonur sem leiddu megnið af leiknum. Lokatölur í Njarðvík 72:76 Valskonum í vil.
Leikurinn hófst með látum og Ína María Einarsdóttir nelgdi tveimur þristum fyrir Njarðvík og setti þar með tóninn fyrir þær í þessum leik. Leikurinn var hinsvegar nokkuð jafn framan af en eftir fyrsta leikhluta leiddu heimsæturnar í Njarðvík 22:17. Þetta var svo ca munurinn á liðunum út leikinn. Í upphafi þriðja leikhluta virtust Njarðvík ætla sér að stinga hreinlega af í þessum leik og komust í stöðuna 60:48.
Þarna urðu hinsvegar kaflaskil í leik Vals því þær hysjuðu upp um sig brækurnar og næstu mínúturnar voru þeirra eign. Þær spiluðu fína vörn sem skilaði þeim að lokum í foyrstu loksins þegar um þrjár mínútur voru til loka leiks. Þessa forystu létu þær ekki af hendi og sigruðu að lokum sem fyrr segir 72:76.
Hjá Njarðvík var það Ína María Einarsdóttir sem var stigahæst með 21 stig en hjá Valskonum var það Anna Alys Martin sem setti niður 20 stig og slíkt sama gerði Kristrún Sigurjónsdóttir.
Hápunktur kvöldsins var hinsvegar þegar Anna Alys Martin reyndi sitt besta að bjarga slakri sendingu sem kom yfir endilangan völlinn og heppnaðist þessi björgun ekki betur en svo að hún lenti illa á undirrituðum við ljósmyndastörf. Anna Alys hristi þetta slæma fall af sér og kom aftur til leiks eftir að hafa kælt bágtið og kláraði sem fyrr segir með 20 stig. Undirritaður hefur það ágætt og mun í framhaldinu fara fram á áhættu bónusa við sín störf.



