spot_img
HomeFréttirKR sigur í síðasta leik

KR sigur í síðasta leik

 KR og Grindavík mættust í lokaumferð Dominosdeildar kvenna í kvöld. Liðin höfðu að litlu að keppa nema þá helst stoltinu enda vilja alvöru íþróttamenn aldrei tapa. Crystal Smith lék ekki með Grindavík en hún meiddist á ökkla í leik gegn Val á dögunum.
 
Báðum liðum virtist ganga illa að finna mótiveringu fyrir leiknum til að byrja með en eftir nokkra mínútna leik var allt komið á blússandi siglingu. Gestirnir úr Grindavík beittu svæðisvörn sem KR liðinu gekk illa með að finna glufur á auk þess að skotnýtingin að utan var ekki til að hrópa fyrir. Ebone Henry hélt þó KR við efnið og var grimm í stigaskoruninni en á sama tíma sáu Pálina og María Ben um stigaskorið fyrir gestina. Það var ekki fyrr en að KR fór að pressa að það fór að slitna á milli milli liðanna en KR var yfir 19-11 eftir fyrsta leikhlutann.
 
Leikur liðanna riðlast töluvert í öðrum leikhluta en báðir þjálfarar spiluðu á mörgum leikmönnum og var gaman að sjá “nýja” leikmenn sýna tilþrif. María Ben var að spila virkilega vel fyrir Grindavík og virtist ekki geta klikkað á skoti á meðan stigaskorið dreifðist vel á KR liðið. Grimm vörn KR stúlkna með Sigrúnu og Björgu í fararbroddi skapaði usla í sóknarleik og náði KR liðið 35-27 forystu í hálfleik.
 
KR liðið kom mun grimmari inní seinni hálfleikinn og opnuðu þær Ebone og Björg hann með sitthvorum þristinum og í kjölfar fylgdu fleiri stig frá Ebone og Sigrúnu. Gestunum gekk illa að brjóta á bak aftur pressu KR sem ekki endilega var að neyða Grindavík í tapaða bolta heldur riðlaði sóknaruppbyggingu og oftar en ekki enduðu sóknir með neyðarskoti.
 
Áfram fengu ungir leikmenn að spreyta sig og vakti athygli ung Grindavísk stúlka að nafni Hrund Skúladóttir. Þessi 14 ára snót á ekki langt að rekja körfuboltahæfileikana en stóra systir er engin önnur en Petrúnella Skúladóttir. Hrund sýndi það og sannaði að hún er mikið efni og alveg óhrædd í sókninni og endaði leikinn með 8 stig. Eðlilega á hún töluvert í land hvað varðar líkamsstyrk og varnarleik en það verður gaman að sjá hennar framþróun næstu ár.
 
Svo fór að KR vann að lokum þægilegan 88-68 sigur. Stigahæst í liði KR var Ebone Henry með 33 en næst kom Sigrún Ámundadóttir sem var ekki svo fjarri þrennunni með 17 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Hjá Grindavík var María Ben góð með 20 stig og 9 fráköst og þá gerði Pálína vel með 18 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar.
 
Þar með hafa þessi tvö lið lokið keppni í Dominos deild kvenna þetta árið. Liðin tvö eflaust ætluðu sér miklu stærri hluti í vetur heldur en að komast ekki í úrslitakeppnina og verða þau bæði staðráðin að gera betur að ári, því ekki vantar mannskapinn. Við tekur ótrúlega langt “sumarfrí” en næsti deildarleikur er ekki fyrr en eftir heila 6 mánuði, eða í byrjun október.
 
Dómarar leiksins voru þeir Sigmundur Már Herbertsson og Steinar Orri Sigurðarson og komust þeir vel frá sínu.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -