Samkvæmt öruggum heimildum okkar Karfan.is var það ekkert annað en lögreglumál í Keflvíkinni í kvöld þegar heimamenn í TM höllinni rændu frábæra ÍR-inga sigri og þar með síðasta hálmstrái þeirra að komast í úrslitakeppnina í ár. Tvíframlengdur leikur skildi eftir sig slóða niður á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem stuðningsmenn liðanna leituðu hjálpar eftir háspennu-lífshættu! Keflavík hafði sum sé sigur 126:123.
Í fyrri hálfleik voru það gestirnir úr Breiðholtinu sem léku við hvurn sinn fingur og voru að hitta gríðarlega vel úr skotum sínum. Svo vel að á tímabili var skotnýting þeirra eftir að hafa tekið 22 þrista 63% (14 ofaní) Liðin í raun skiptust á körfum en það sem gerði Keflvíkingum erfitt fyrir að á meðan þeir settu niður 2 stig þá settu ÍR niður 3. Þetta gerði það að verkum að það voru ÍR sem leiddu í hálfleik 56:60. Og það hlýtur að þurfa að fletta langt aftur til að sjá hverjir skoruðu síðast 60 stig á Keflvíkinga á þeirra eigin heimavelli í fyrri hálfleik. Eng skipti þótt Keflvíkingar spiluðu svæði eða maður á mann vörn. ÍR-ingarnir gengu á eldi þennan fyrri hálfleik. Michael Craion hélt Keflvíkingum á floti en ÍR-ingar voru í talvsverðu basli með að hemja hann.
Í þeim seinni þá héldu ÍR-ingar áfram að hamra heitt stálið og hittu áfram vel. En vörn Keflvíkinga fór að lagast þegar líða tók á og undir lokin komust þeir loksins yfir. í stöðunni 95:97 tekur Valur Orri Valsson til sinna ráða og setur niður 6 næstu stig leiksins (tveir risa þristar) og kemur sínum mönnum yfir þegar rétt tæp mínútar er til loka leiks. En ÍR ingar hreinlega neituðu að gefast upp og náðu að knýja leikinn í framlengingu.
Eftir fyrstu framlenginguna voru Keflvíkingar enn búnir að koma sér í nokkuð þæginlega stöðu. Þriggja stiga forskot og aðeins 20 sekúndur eftir. Guðmundi Jónssyni hefur eitthvað fundist þetta auðvelt og var klaufalegur þegar hann braut á Ragnari Erni Bragasyni í þriggjastiga skoti. Ragnar þakkaði pent fyrir og setti öll vítin niður og jafnaði leikinn og þar með önnur framlenging. Eftir jafnan tangó í síðustu framlengingunni var það Arnar Freyr Jónsson sem setti niður úrslita þrist kvöldsins og þrátt fyrir 2 tilraunir ÍR í að jafna leikinn þá var komið að endalokum kvöldsins. 126: 123 sigur Keflvíkinga var staðreynd og gall harðir Keflvíkingar voru á því að þetta hafi verið rán vetursins.
Hjá ÍR voru þeir Nigel, Björgvin, Matthías, Ragnar Örn og Sveinbjörn frábærir. Hittu gríðarlega vel á köflum og svo var það Hjalti í teignum sem var solid. Craion var í “Ófreskju ham” sem endra nær fyrir þá Keflvíkinga en þeir Guðmundur Jónsson og Darrell voru einnig sterkir. Keflvíkingar spiluðu í kvöld án Magnúsar Gunnarssonar og Gunnars Ólafssonar sem báðir eru meiddir.



