Það er alls ekki fyrir kvöldsvæft fólk að styðja lið Skallagríms í körfubolta. Annan leikinn í röð var framlengt í Fjósinu og Skallarnir unnu sinn annan heimaleik í röð og tryggðu þar með sæti sitt í deildinni að ári.
Gestirnir hófu leikinn af meiri elju og komust í 0-8 á upphafsmínútunum. Heimamenn komust þó fljótlega inní leikinn og komust yfir fyrir lok leikhlutans. Því svöruðu haukfránir Hafnfirðingar fljótlega og leiddu lengst af fyrri hálfleik. Þar til Skallarnir gerðu áhlaup undir lok hálfleiksins og komust yfir. Þetta var alls ekki í fyrsta skiptið í vetur sem Skallagrímsmenn eru yfir í hálfleik, en í flestum tilfellum hefur sú forysta fokið útí hafsauga í seinni hálfleik. Þrátt fyrir að beygur væri í heimamönnum á pöllunum að slíkt myndi gerast í kvöld, héldu heimamenn sjó og höfðu forskot megnið af seinni hálfleik. Haukarnir af mikilli baráttu náðu loks að komast yfir þegar skammur tími lifði af leiknum. Héldu nú bændur og búalið að sagan væri að endurtaka sig í fjósinu, að Skallar væru að glutra niður unnum leik.
Er rúmlega mínúta var eftir af leiknum var staðan 74-79 Haukum í hag. Ármann setti þá niður 2 víti og Smith setti svo annað vítið sitt eftir að Watson hafði misnotað skot fyrir Haukana. Gestirnir samt í kjörstöðu þegar 15 sekúntur voru eftir. Þeir tóku þá leikhlé í stöðunni 77-79 og fengu boltann inn á miðju. Þá var hinsvegar komið að því að Benjamin Curtis Smith setti þeim stólinn fyrir dyrnar. Hann bísaði boltanum við miðjuna, brunaði upp og jafnaði leikinn með þokkafullu sniðskoti 79-79. Hafnfirðingum tókst ekki að nýta lokasóknina og því framlengt. Um framlenginguna þarf ekkert að fjölyrða. Smith tók leikinn í sínar hendur og gerði 16 stig í framlengingunni.
Borgnesingar því öruggir með sæti sitt í úrvalsdeildinni á kostnað Ísfirðinga.
Benjamin Curtis Smith var algjörlega óstöðvandi í kvöld og setti 52 stig ásamt því að taka 10 fráköst og gefa 8 stoðsendingar. Aðrir skoruðu minna. Hjá Haukum var Watson atkvæðamestur með 24 stig. Davíð Páll gerði 21 stig og Emil Barja daðraði við þrennuna með 10 stig, 12 fráköst og 6 stoðsendingar.
Texti: Ragnar Gunnarsson
Mynd: Ómar Örn Ragnarsson



