Stjórn Körfuknattleiksdeildar Skallagríms og Pálmi Þór Sævarsson hafa komist að samkomulagi um að ekki verði endurnýjaður samningur á milli körfuknattleiksdeildarinnar og Pálma varðandi þjálfun úrvalsdeildarliðs Skallagríms en samningur deildarinnar við hann rennur út í vor. Þetta kemur fram á www.skallagrimur.is
Á heimasíðu Borgnesinga segir ennfremur:
Pálmi hefur stýrt liðinu undanfarin fjögur tímabil og þar af síðustu tvö í úrvalsdeild og komst liðið m.a. í 8-liða úrslit tímabilið 2012-2013.
Pálmi hefur lagt mikið á sig til að koma liðinu á þann stað sem það á heima þ.e.a.s í deild þeirra bestu á Íslandi. Hann hefur verið vakinn og sofinn yfir velferð liðsins og sýnt mikinn vilja og dugnað til þess að festa liðið í sessi í úrvalsdeildinni.
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Skallagríms þakkar Pálma fyrir afar góð samskipti undanfarna vetur. Pálmi á þakkir skyldar fyrir vasklega framgöngu undanfarin ár.
Væntir stjórn Körfuknattleiksdeildarinnar þess að Pálmi haldi áfram að miðla af sinni reynslu og þekkingu til framtíðar leikmanna Körfuknattleiksdeildar Skallagríms.
Stjórn Körfuknattleiksdeildar Skallagríms hefur þegar hafið leit að arftaka Pálma.



