spot_img
HomeFréttirPálmi: Borgarnes er ennþá Happiness

Pálmi: Borgarnes er ennþá Happiness

„Jú jú, þetta er ennþá eintómt Happiness,“ svaraði Pálmi Þór Sævarsson með vísan í Magga Mix-slagarann um viðskilnað sinn við úrvalsdeildarlið Skallagríms þegar Karfan.is náði af honum tali í morgun. Skallagrímur og Pálmi hafa komist að þeirri niðurstöðu sameiginlega að Pálmi láti af þjálfun Borgnesinga sem tryggðu stöðu sína í Domino´s deildinni þetta tímabilið en máttu þó sjá á eftir úrslitakeppninni.
 
 
„Þetta lá eiginlega fyrir í upphafi þessa tímabils enda hefur síðasta árið verið strembið fjölskyldulega og ég skulda mínu fólki fjölskyldutíma svo þetta er ekki gert í neinum leiðindum. Maður vildi bara klára þetta strax svo það yrði nægur tími fyrir félagið til að finna góðan mann í minn stað til að taka við þessu,“ sagði Pálmi svo við spurðum hann rakleiðis hvort það væri ekki Finnur Jónsson aðstoðarþjálfari Pálma sem yrði hans arftaki í skipstjórasætinu?
 
 
„Ég bara veit það ekki, ég veit að ég ætla að halda áfram að vinna í yngri flokkum félagsins og er ekkert hættur í körfubolta. Maður heldur bara áfram að vinna í starfinu og hjálpa til eins og maður getur,“ sagði Pálmi. En hvað þarf að gerast í Borgarnesi svo klúbburinn taki næsta skref, nú er búið að festa liðið í úrvalsdeild, hvert og hvernig er næsta skref upp á við fyrir Skallagrím?
 
 
„Við þurfum að byggja á því sem við höfum verið að gera, starfið er alltaf erfitt í svona smærri bæjarfélögum en við erum að byggja á heimamönnum og það eru þeir sem þurfa að taka næstu skref, vera duglegir í sumar að byggja sig upp og eins gætum við þurft að styrkja hópinn. Við þurfum þó aðallega að byggja upp okkar innra starf og gera það á heimamönnum. Hópurinn er ungur og flottur og það þarf að halda honum saman en við þekkjum auðvitað þetta rót á mönnum í íslenska boltanum svo við höfum fengið inn eldri pósta í liðið til að binda þetta saman. Ég sé nokkra stráka koma upp á næstunni og því ekki hægt að ætla annað en að framtíðin sé björt í Borgarnesi. Maður má þó hvergi slaka á og við þurfum að auka gæðin á öllum stigum í okkar starfi. Ef vel er haldið á spilunum þurfum við ekki að kvíða neinu.“
 
 
En hvaða þýðingu hefur það fyrir stað eins og Borgarnes að eiga lið í úrvalsdeildinni?
„Það er ómetanlegt enda stemmningin hjá okkur frábær í kringum þetta. Það er kannski ekki mikið að gerast í bæjarfélaginu yfir veturinn svo bærinn þjappar sér vel í kringum liðið og maður sá það bersýnilega í síðasta leiknum gegn Haukum þar sem stemmningin var frábær. Við erum með frábæra stuðningssveit og það þarf einnig að halda vel utan um hana enda ómetanlegt fyrir leikmenn sem eru að spila að fá svona hvatningu í skemmtilegri umgjörð þar sem vel er haldið á spilunum,“ sagði Pálmi sem kveður skipstjórastarfið í Borgarnesi sáttur.
 
 
„Ég er búinn að ná þeim markmiðum sem ég setti mér í upphafi, að fara í úrvalsdeild og festa liðið þar í sessi. Þó þetta tímabil hafi verið viss vonbrigði að komast ekki í úrslitakeppnina þá gekk á ýmsu í s.b.v. meiðsli og basl í málefnum erlendra leikmanna en þá get ég að minnsta kosti verið bara sáttur með mitt hlutverk. Eins og ég hef sagt áður þá er ég ekki hættur heldur mæti bara aftur og tek við liðinu þegar strákurinn minn fer að spila í meistaraflokki, tryggja bara að hann fái nægan spilatíma,“ sagði Pálmi gamansamur en við kvöddum hann þó á sýnu alvarlegri nótum.
 
 
„Ég er sáttur við mitt hlutskipti, meginmarkmiðinu er náð og nú er komið að fjölskyldunni minni, svo sjáum við bara til hvað verður.“
 
 
Fréttir
- Auglýsing -