Njarðvíkingar fengu Hauka í heimsókn í Ljónagryfjuna í kvöld í fyrsta leik liðanna í 8-liða úrslitum karla í Domino’s deildinni. Eins og margir eflaust vita eru 8-liða úrslitin nú “best of five” seríur, s.s. upp í þrjá sigra en ekki tvo.
Byrjunarlið Njarðvíkur: Elvar Friðriksson, Logi Gunnarsson, Ágúst Orrason, Ólafur Helgi Jónsson og Tracy Smith
Byrjunarlið Hauka: Emil Barja, Sigurður Einarsson, Haukur Óskarsson, Terrence Watson og Svavar Pálsson
Eftir að Tracy Smith setti eitt víti til að opna leikinn gerðu Haukar 0-7 áhlaup og virtust strax klárir í úrslitakeppnina. Heimamönnum gekk brösuglega allan fyrsta fjórðunginn á meðan Haukarnir léku á alls oddi. Sigurður Þór Einarsson setti 8 stig í leikhlutanum og þar á meðal einn í andlitið á Njarðvíkingum þar sem hann vildi fá þristur-karfa-góð-villa. Tracy Smith var eini Njarðvíkingurinn sem skoraði utan af velli í fyrsta hluta og endaði með 11 stig eftir hann, en Maciek Baginski setti eitt víti. Njarðvík skoraði úr 21% skota utan af velli í fyrsta leikhluta, en staðan eftir 10 mínútur var 12-25.
Hlutirnir snerust aftur á móti við í öðrum leikhluta, sem Njarðvíkingar tóku 29-14. Ólafur Helgi var frábær í leikhlutanum, ásamt því sem Logi, Elvar og Tracy Smith skiluðu inn góðum stigum fyrir Njarðvík. Hálfleikstölur 41-39 heimamönnum í hag og meðbyrinn kominn til heimamanna.
Njarðvíkingar héldu 4-5 stiga forskoti fyrstu fimm mínútur þriðja leikhluta eða svo, allt þangað til Haukarnir tóku við sér á ný og splæstu í 6-15 áhlaup síðustu mínútur fjórðungsins. Staðan eftir þriðja leikhluta 58-61 fyrir gestina sem virtust staðráðnir í að fara heim í Hafnarfjörðinn 1-0 yfir.
Einar Árni Jóhannsson tók leikhlé þegar tæpar 3 mínútur voru liðnar af fjórða leikhluta, en þá höfðu hans menn tekið þrjá þrista gegn tveimur tvistum í leikhlutanum og Tracy Smith varla fengið boltann. Njarðvíkingar svöruðu kalli Einars og tóku forystuna með “and one” frá Ólafi Helga. Elvar Már Friðriksson setti rándýran þrist í stöðunni 80-79 þegar 33 sekúndur voru eftir en hann bara dripplaði upp og “púllaði” þristinum, líklega með 2-fyrir-1 tækifæri í huga. Eftir þetta var vítaleikurinn spilaður og Njarðvíkingar sigldu sigrinum í höfn á línunni. Lokatölur 88-84 eftir frábæran körfuboltaleik og Njarðvík komnir í 1-0.
Tracy Smith var frábær fyrir heimamenn í leiknum og skilaði inn 33 stigum með 62% skotnýtingu og 18 fráköstum. Þá voru Logi og Elvar Már með 16 stig hvor og Elvar bætti við 9 stoðsendingum. Ólafur Helgi var virkilega mikilvægur fyrir Njarðvík og setti 13 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, frábær leikur.
Haukamegin var Terrence Watson með 21 stig, 18 fráköst og 4 stoðsendingar, Haukur Óskarson með 21 stig og Sigurður Þór Einarsson bætti við 14 stigum í einungis 5 skotum, en hann átti frábæran fyrsta leikhluta. Þá skilaði Emil Barja 6 stigum, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum.
Umfjöllun: AÁ



