spot_img
HomeFréttirFjölnir - Breiðablik (Umfjöllun)

Fjölnir – Breiðablik (Umfjöllun)

Úrslitakeppnin í 1. deild karla hófst í kvöld með viðureign Fjölnis og Breiðabliks í Dalhúsum. 
 
Leikurinn hófst með mjög litlausum fyrsta hluta sem endaði með 15 stigum Fjölnis gegn aðeins 8 stigum Blika. Blikar voru stigalausir síðustu fimm mínúturnar en þeir hefðu ekki getað hitt boltanum í hafið úr árabát. Heimamenn voru lítið skárri þar til þeir náðu 7-0 rispu til að loka fjórðungnum.
 
Annar leikhluti var allt annar fyrir Blika en þá fóru þeir að nýta færin sín mun betur í teignum og voru 5/5 þar en 2/5 fyrir utan þriggja stiga línuna. Blikar náðu að jafna metinn á 17 mínútu en staðan var 38-34 heimamönnum í vil þegar flautað var til hálfleiks.
 
Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri. Blikar voru stigalausir fyrstu tvær mínúturnar en heimamenn fóru að gefa í þegar um fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik, hertu vörnina en Blikar fengu aðeins 11 skottækifæri í þriðja leikhluta. Munurinn var orðinn of mikill eða 22 stig þegar fjórði hluti hófst og Blikar sáu aldrei til sólar þrátt fyrir ágætis leik í fjórða hluta.
 
Öruggur 93-66 sigur Fjölnismanna staðreynd og þeir komnir 1-0 í seríunni.
 
Daron Sims var frábær fyrir Fjölnismenn með 30 stig og 5 fráköst. Hitti 62% af skotum sínum. Ólafur Torfa átti einnig glimrandi leik með 19 stig og 15 fráköst, og bætti einnig við 4 stolnum boltum. Hann var einnig 3/6 úr þriggja stiga skotum. Bakverðirnir Róbert og Páll Fannar voru með 7 stoðsendingar hvor.
 
Hjá Blikum var fátt um fína drætti. Pálmi skoraði 15 stig og bætti við 8 fráköstum. Þorsteinn Gunnlaugsson bætti við 13 og aðrir með mun minna.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -