Þór og Grindavík mættust í Þorlákshöfn í kvöld í öðrum leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla. Pallarnir í Icelandic Glacial-höllinni voru þétt setnir, enda mikið í húfi. Heimamenn hreinlega urðu að vinna í kvöld til þess að halda spennu í seríunni. Þeim varð að ósk sinni og unnu verðskuldaðan 9 stiga sigur, 98-89, í leik þar sem dómararnir voru í stóru hlutverki.
Þórsarar byrjuðu leikinn betur og voru yfir allan fyrsta leikhluta. Grindvíkingar náðu þó að minnka muninn undir lok leikhlutans og að honum loknum var staðan 25-23. Um miðjan leikhlutann varð leiðinlegt atvik, en þá voru Mike Cook og Þorleifur Ólafsson í stöðubaráttu inni í teig Grindvíkinga. Cook hrinti Þorleifi frá sér, hann lenti illa og meiddist á hné. Hann var borinn af velli af liðsfélögum sínum og lék ekki meira með. Samkvæmt fréttum að leik loknum er óttast að meiðsli hans séu alvarleg og að krossbönd séu mögulega slitin, sem eru afleitar fregnir fyrir Grindvíkinga.
Í öðrum leikhluta gáfu Þórsarar í með Emil Karel Einarsson fremstan í flokki. Hann setti þrjár stórar þriggja stiga körfur með stuttu millibili og kveikti í félögum sínum og stuðningsmönnum á pöllunum. Grindvíkingar virtust að sama skapi ekki alveg vera mættir til leiks, hentu boltanum nokkrum sinnum klaufalega út af vellinum og hittu illa. Staðan í hálflleik var 54-40 fyrir heimamönnum.
Dómarar leiksins, Björgvin Rúnarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson og Georg Andersen voru í stóru hlutverki í kvöld sem áður segir. Þeir flautuðu mjög mikið og oft að því er virtist af litlu tilefni. Bæði lið lentu þannig snemma í villuvandræðum. Mike Cook var kominn með fjórar villur í fyrri hálfleik og spilaði ekki mikið í þeim seinni. Stóru mennirnir Raggi Nat og Siggi Þorsteins voru báðir komnir með þrjár villur fyrir hálfleik og á upphafsmínútum seinni hálfleiks fékk Siggi svo tvær ódýrar villur með skömmu millibili og þar með var hans leik lokið.
Að missa Sigurð út af virtist kveikja einhvern neista í Grindvíkingum því þeir byrjuðu að setja niður öll sín skot og söxuðu hratt á forskot Þórsara í þriðja leikhluta. Staðan að honum loknum var 69-65 Þórsurum í vil og ljóst var að hart yrði barist í seinasta leikhlutanum.
Grindvíkingar byrjuðu hann betur og héldu áfram að saxa á forskot Þórsara. Þeir komust síðan yfir, náðu 5 stiga forystu eftir djúpan þrist frá Jóni Axeli Guðmundssyni og virtust ætla að snúa leiknum sér í vil. Þá hrökk hins vegar allt í baklás hjá þeim og Þórsarar settu þrjár einfaldar körfur í röð með því að finna Ragga Nat undir körfunni, þar sem hann hafði mikla yfirburði. Grindvíkingar reyndu síðan hvað þeir gátu að minnka muninn á síðustu mínútum en Þórsarar sigldu mikilvægum sigri í höfn og jöfnuðu seríuna, 1-1.
Þórsarar settu 98 stig í kvöld sem er það mesta sem Grindavík hefur fengið á sig síðan að þeir unnu KR fyrir rúmum tveimur mánuðum. Stigaskor Þórsara var mjög jafnt í kvöld, það var enginn einn að draga vagninn í sóknarleiknum. Emil Karel og Mike Cook voru báðir með 18 stig, Tómas með 17, Ragnar og Sovic með 14 og Baldur Þór með 13. Í liði Grindavíkur var Jón Axel með 21 stig, Earnest Clinch Jr. með 20, Jóhann með 15 og Ólafur 14.
Ljóst er að áhugavert verður að fylgjast með framhaldi þessarar seríu. Grindvíkingar hafa verið mjög öflugir í vetur en það að missa Þorleif heggur þó stórt skarð í þeirra raðir.
Það sem situr helst eftir að þessum leik loknum er dómgæslan. Undirritaður er enn að reyna að ná almennilega utan um nokkur atvik í leiknum þar sem enginn í húsinu virtist skilja hvað væri í gangi. Dómararnir flautuðu of mikið og oft fyrir litlar sakir. Þórsarar fengu 48(!) vítaskot í leiknum, sem er met yfir flest víti dæmd á lið á tímabilinu í Dominos-deildinni, og nýttu 31 þeirra, sem er einnig met. Þetta eru ótrúlegar tölur.
Myndir/ Davíð Þór
Umfjöllun/ Arnar Þór Ingólfsson





