Leikur tvö í rimmu Stjörnunnar og Keflavíkur fór fram í Ásgarði í kvöld. Stjarnan hafði eins og frægt er orðið unnið fyrsta leik liðanna í Keflavík nokkuð óvænt og því var fróðlegt að sjá hvort gestirnir úr Keflavík næðu að koma fram hefndum, enda ekki á hverjum degi sem liðið í öðru sæti úrslitakeppninnar tapar fyrsta leik á heimavelli gegn því sjöunda.
Til að byrja með voru liðin nokkuð jöfn. Gestirnir skoruðu fimm fyrstu stig leiksins, en Marvin Valdimarsson var aldrei langt undan og skoraði fyrstu sjö stig heimamanna. Jafnt var á öllum tölum fyrsta fjórðunginn og eftir keflvískan þrist frá Darrell Lewis voru liðin jöfn að loknum tíu mínútum, 19-19. Lewis var hér kominn með 9 stig, en heimamönnum gekk illa að hemja hann.
Í öðrum leikhluta skoruðu Stjörnumenn fyrstu fimm stigin, en Keflvíkingar héldu þó í við þá framan af leikhlutans. Þá tóku heimamenn hins vegar við sér og luku leikhlutanum með 10-2 áhlaupi, þar á meðal þristi frá Justin Shouse í lokasókn fyrri hálfleiks. Sóknarleikur Stjörnunnar síðustu mínútur fyrri hálfleiks var gullfallegur, þar sem boltinn fékk að ganga vel milli manna og Garðbæingar fengu mörg opin skot. Staðan var skyndilega orðin 46-32, og því fjórtán stiga munur þegar liðin gengu til búningsklefanna.
Stjörnumenn héldu áfram að bjóða upp á það sama í þriðja leikhluta. Svo virtist sem að Marvin Valdimarsson myndi á einhverjum tímapunkti kveikja í netinu, en kappinn skoraði tvo þrista með skömmu millibili í þriðja leikhluta og kom Stjörnunni átján stigum yfir, 57-39. Marvin var sjóðandi heitur í allt kvöld og skoraði fimm þrista úr sex tilraunum. Þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir Darrell Lewis og Michael Craion gekk fátt upp hjá gestunum, og var oft eins og Stjörnumenn léku sér að þeim. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 70-56, Stjörnunni í vil, og var sú forysta síst of stór.
Flest benti til þess að Stjörnumenn myndu sigla þessu nokkuð rólega heim. Forysta þeirra var nítján stig þegar mest lét um miðjan fjórða leikhluta, og Keflvíkingar virtust pirraðir og einfaldlega ekki tilbúnir í úrslitakeppnina! Þá steig upp drengur að nafni Valur Orri Valsson og einfaldlega hélt gestunum á floti. Valur skoraði þrjá þrista í röð og eftir einn þrist til frá Magnúsi Gunnarssyni var munurinn skyndilega búinn að minnka niður í sjö stig, þegar um hálf mínúta lifði leiks. Nær komust gestirnir þó ekki og eftir nokkur vítaskot Garðbæinga fögnuðu þeir ansi sanngjörnum sigri, 98-89, og hafa Stjörnumenn því tekið 2-0 forystu í einvígi liðanna.
Stjörnumenn spiluðu fantagóðan körfubolta í kvöld og voru ansi vel að sigrinum komnir. Justin Shouse var þeirra stigahæstur með 28 stig, auk tíu stoðsendinga, og Marvin Valdimarsson skoraði 22 stig. Þá er vert að minnast á framlag Jóns Sverrissonar sem var stórkostlegur af bekknum, barðist eins og ljón í vörn og sókn og gerði Keflvíkingum lífið leitt.
Keflvíkingar geta hins vegar talist heppnir að nú þurfi þrjá leiki til að komast í undanúrslit ólíkt því sem áður hefur verið. Stjörnumenn hafa einfaldlega verið talsvert betri það sem af er þessu einvígi, og er ekki að sjá að Keflvíkingar hafi endað í öðru sæti í Domino’s deildinni. Darrell Lewis komst þó vel frá sínu með 30 stig (12/15 úr tveggja stiga tilraunum) og Valur Orri Valsson gaf gestunum von undir lok leiks, en Valur skoraði 19 stig, þar af 16 í lokafjórðungnum. Keflavík þarf hins vegar að spila miklu betur ef þeir ætla sér að knýja fram fjórða leik.
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson
Mynd/ [email protected]



