spot_img
HomeFréttirLogi: Dælum á drekann okkar í teignum

Logi: Dælum á drekann okkar í teignum

 „Báðir leikirnir hafa verið svipaðir, Haukar byrja vel og við á hælunum, þeir hitta vel og hefja þetta með meiri krafti en við en ég er ánægður með að í bæði skiptin vorum við fljótir að svara og komast inn í leikinn. Við vorum ekki lengi að elta og hleyptum þeim aldrei of langt frá okkur en þetta þurfum við þó að laga fyrir föstudag, þ.e. að byrja betur,“ sagði Logi Gunnarsson leikmaður Njarðvíkinga eftir sigurinn á Haukum í kvöld. Njarðvíkingum dugir einn sigur til viðbótar til að tryggja sér sæti í undanúrslitum Domino´s deildarinnar.
 
 
„Þó Haukar komi með sín áhlaup höfum við náð að stoppa þau mjög vel í vörninni og þá finnst mér við einnig vera að sýna að við erum með djúpt lið. Það virkar oft eins og við séum ekki djúpir þegar mikið mæðir á okkur þremur, mér, Elvari og Tracy en í kvöld erum við að fá gott framlag frá mönnum og að spila á níu leikmönnum. Eins finnst mér við vera farnir að velja betri skot, við erum ekki að skjóta mörgum þristum núna og ekki heldur að þröngva þeim á loft. Við dælum á drekann okkar Tracy í teignum og þar er hann „solid.“ Við erum að verða betri og betri með Tracy innanborðs og ég er ánægður með jafnvægið sem er komið í inn-út leikinn okkar.“
 
Einhver hættumerki sem þarf að taka á fyrir leik þrjú á föstudag?
 
„Ég hef áður lent í því á ferlinum að vera 2-0 yfir og tapa svo heimaleiknum þegar maður á hann í þriðja leik. Það gerist oftar ef maður vinnur stórt en í þessu tilfelli höfum við ekki unnið stórt heldur erum við að spila gegn sterku liði sem hefur unnið okkur í vetur, Keflavík og farið í tvíframlengdan leik gegn Grindavík. Ef við mætum eitthvað annað en brjálaðir á föstudag þá verður þetta bara erfiður og langur leikur fyrir okkur. Ef við mætum á föstudag eins og við höfum gert síðustu tvo leiki og byrjum kannski betur þá hræðist ég þetta ekkert. Við vitum að þetta verður barningur en leggjum allt í sölurnar til að fara ekki aftur inn í Hafnarfjörð.”
 
Mynd/ Axel Finnur
  
Fréttir
- Auglýsing -