spot_img
HomeFréttirOlson aðstoðarþjálfari U18 ára liðs Bandaríkjanna

Olson aðstoðarþjálfari U18 ára liðs Bandaríkjanna

Erik Olson þjálfari FSu hefur verið ráðinn sem aðstoðarþjálfari hjá U18 ára landsliði Bandaríkjanna og hans fyrsta verkefni með hópinn verður hið rótgróna og óeiginlega heimsmeistaramót „The Albert Schweitzer Tournament“ sem fram fer í Þýskalandi í apríl. Olson sagðist í samtali við Karfan.is bæði þakklátur og spenntur fyrir þessar stóru þjálfarastöðu.
 
 
Bandaríkjamönnum hefur gegnið vel á þessu sterka móti sem haldið hefur verið í Þýskalandi annað hvert ár síðan 1958 og hefur bandaríska liðið unnið mótið oftast allra liða eða tíu sinnum. Á mótinu hafa ekki ómerkari kappar en Magic Johnson, Vince Carter, Tim Duncan, Dirk Nowitzki og Tony Parker komið við sögu. Það er því ekki loku fyrir það skotið að í framtíðinni geti Olson státað sig af því að hafa stýrt einhverri stjörnunni í Þýskalandi sumarið 2014.
 
„Ég er bæði spenntur og þakklátur fyrir þetta tækifæri að fá að vera fulltrúi Bandaríkjanna í alþjóðlegri keppni með nokkra af bestu leikmennum heims sem þátttakendur í keppninni. Það ætti að verða ansi mikil og öflug samkeppnin þarna. Þetta verður reyndar í fyrsta sinn sem þetta bandaríska lið kemur saman svo það mun skipta miklu hve snöggt við getum komið hópnum saman sem liði. Það verða engir auðveldir leikir í þessu móti og við verðum að mæta með okkar besta leik í hvern einasta leik. Mikill tími mun fara í að skipuleggja og undirbúa liðið fyrir hvern og einn andstæðing og þar kem ég við sögu,“ sagði Olson sem beðinn var um að gangast við starfinu til að færa hópnum alþjóðlega reynslu.
 
„Síðastliðin sex ár hef ég lagt mikið á mig, verið fjögur ár sem leikmaður þar sem við m.a. unnum skoska meistaratitilinn, verið í Þýskalandi, Ástralíu þar sem ég var m.a. valinn Waratha League Coach of the Year árið 2012 en eftir það kom ég til Íslands,“ sagði Olson sem nú hefur lokið samningi sínum við FSu.
 
„Ég hef unnið að því að koma mér í stöðu á alþjóðlegum vettvangi og þetta starf með bandaríska U18 ára liðið er fyrsta skrefið í því að öðlast mikilvæga reynslu þar sem manni gefst færi á því að keppa á sama grundvelli og sumir af færustu þjálfarar heims,“ sagði Olson. Nú er Olson án samnings á Íslandi eftir 1. júní þessa árs og sagði hann ekki loku fyrir það skotið að snúa aftur til Íslands eftir sumarið.
 
Mynd/ GK – www.sunnlenska.is
  
Fréttir
- Auglýsing -