Fjölnismenn komust í gærkvöld í úrslitaeinvígi 1. deildar karla eftir æsispennandi lokamínútur oddaleiks gegn Breiðabliki. Blikar höfðu tögl og hagldir stærstan hluta leiksins, en með ótrúlegri eljusemi tókst Fjölnismönnum að kreista fram sigur á lokaandartökunum, 82-77.
Leikurinn í fyrsta leikhluta var gríðarlega jafn, og hvorugt liðið náði forystu svo nokkru næmi. Gestirnir úr Kópavogi höfðu eins stigs forystu að honum loknum, 19-20.
Í öðrum leikhluta byrjuðu heimamenn af gríðarlegum krafti. Fjölnismenn skoruðu fyrstu 15 stig fjórðungsins, og virtist sem allur vindur væri úr Blikum. Eftir leikhlé rönkuðu Blikar hins vegar heldur betur við sér, og hlóðu í 17-2 áhlaup. Eftir þrist frá Birni Kristjánssyni var staðan því skyndilega orðin 36-37, gestunum í vil, og aðeins um hálf mínúta sem lifði af fyrri hálfleik. Daron Sims var hins vegar ekki á því að tapa fyrri hálfleik, og smellti sjálfur niður risastórum þrist í þann mund er fyrri hálfleikur rann út. Staðan því 39-37, Fjölnismönnum í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Blikar héldu uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks. Jerry Hollis og Oddur Kristjánsson skoruðu vel, og Fjölnismenn virtust eiga í miklum vandræðum með að koma stigum á töfluna. Fyrir lokafjórðunginn höfðu gestirnir ágæta níu stiga forystu, 54-63, og var stemmingin öll þeirra meginn.
Þó að Fjölnismönnum hafi gengið betur að skora í fjórða leikhluta, þá höfðu gestirnir svör við öllu, að minnsta kosti framan af. Það var ekki fyrr en á síðustu mínútum leiksins sem Fjölnismönnum tókst að gera alvöru reifara úr leiknum, en Róbert Sigurðsson og Daron Sims fóru þá í einhvern ham. Fjölnismenn enduðu leikinn á 13-2 áhlaupi síðustu tvær mínútur leiksins, og stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar, 82-77 eftir magnaðar lokamínútur.
Hjalti Vilhjálmsson þjálfari Fjölnis var að vonum ánægður með sigur sinna manna. “Strákarnir sýndu mikinn karakter að vinna þennan leik, við vorum að elta stærstan hluta síðari hálfleiksins en vorum alltaf að ná stoppum, við bara gátum ekki skorað á móti. En við komum okkur aftur inn í þetta, Daron setur þrist sem er óvanalegt, og þetta féll með okkur”.
Títtræddur Daron Sims var stigahæstur Fjölnismanna með 29 stig og tók auk þess 14 fráköst. Ólafur Torfason var einnig með tröllatvennu, skoraði 21 stig og tók 19 fráköst.
Hjá Blikum var Oddur Kristjánsson stigahæstur með 17 stig.
Umfj: EKG
Mynd: KW



