Njarðvík og Haukar mættust í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Domino’s deildarinnar í kvöld. Njarðvík leiddi einvígið 2-0 fyrir leikinn og gat sent Hauka í sumarfrí með sigri.
Byrjunarlið Njarðvíkur: Elvar Már Friðriksson, Logi Gunnarsson, Ágúst Orrason, Ólafur Helgi Jónsson og Tracy Smith
Byrjunarlið Hauka: Emil Barja, Sigurður Þór Einarsson, Haukur Óskarsson, Terrence Watson og Svavar Pálsson
Njarðvíkingar byrjuðu af krafti og komust í 6-2 í byrjun með þristi frá Ágústi Orrasyni og “and-one” frá Loga Gunnarssyni. Haukarnir voru þó fljótir að vakna til lífsins og komust eftir stutta stund í góða forystu og Helgi Björn Einarsson endaði fyrsta fjórðunginn með ævintýralegum þriggja stiga “buzzer”. Staðan að 10 mínútum loknum 18-31 gestina í vil og Haukarnir búnir að vera í forystu í byrjun í öllum þrem leikjum seríunnar.
Njarðvíkingar minnkuðu í þrjú stig í öðrum leikhluta en Terrence Watson jók muninn í 7 með stökkskoti í lok fjórðungsins, Þrátt fyrir það allt opið og langt frá því að vera búið enda erum við að tala um úrslitakeppnina upp á sitt besta.
Terrence Watson var með 15 stig fyrir gestina í hálfleik en Elvar Már var með 10 fyrir Njarðvík og Logi Gunnars 9.
Stemningin í þriðja leikhluta var óborganleg og var virkilega vel tekið á því inni á vellinum. Haukar voru alltaf 2-5 stigum yfir en Njarðvík virtist alltaf vera á leiðinni að jafna og Logi Gunnarsson minnkaði muninn í eitt stig, 59-60 í lok leikhlutans með öðru “and-one”-i, en Emil Barja gerði slíkt hið sama hinum megin, nema klikkaði úr vítinu og staðan því 59-62 rauðklædda í hag eftir þrjár lotur.
Njarðvíkingar voru með stórra skota þema í gangi í fjórða leikhlutanum. Logi Gunnars setti tvo glæsilega þrista í röð af dripplinu sem færðu heimamönnum forystuna og Maciek Baginski setti síðan einn stóran sem kom þeim yfir á ný eftir að gestirnir höfðu jafnað. Maciek sigldi sigrinum svo í höfn á vítalínunni og staðreyndin 81-77 Njarðvík í vil.
Þó svo að Terrence Watson hafi skorað 33 stig fyrir Hauka gerðu þeir Ólafur Jónsson og Hjörtur Hrafn Einarsson virkilega vel á hann varnarlega, en oft á tíðum var lítið hægt að gera í erfiðum “fadeaway” skotum þessa frábæra leikmanns.
Tracy Smith átti ekki sinn besta leik sóknarlega fyrir Njarðvík en hann var í villuvandræðum í leiknum og skoraði aðeins 9 stig en tók 13 fráköst og ljómaði allur við sigurinn.
Njarðvíkingar eru nú komnir áfram eftir æsispennandi seríu þar sem allir þrír leikirnir unnust með fjórum stigum og sóp gefur eiginlega bara ekki rétta mynd af seríunni.
Umfjöllun: AÁ



