,,Stemmningin er mjög góð og mikill hugur í okkur þó við séum án Brown í kvöld og þá er Hugrún ekki í lagi. Hugrún prófaði að vera með síðast og við ætlum að hafa hana í búning í kvöld,” sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells. Deildarmeistarar Snæfells taka á móti Haukum í fyrsta leik liðanna í úrslitum Domino´s deildar kvenna í kvöld kl. 18:00 í Stykkishólmi.
,,Varðandi Hauka ber að varast Lele Hardy eins og dýnamít og það verður mjög verðugt verkefni að hægja á henni. Heimavöllurinn er okkur frábær þar sem við höfum fengið mjög góðan stuðning í allan vetur og eigum von á enn betri stuðningi núna í úrslitunum,” sagði Ingi en okkur lék forvitni á að vita nánar stöðuna á Chynna Unique Brown.
,,Við stöndum á gati með þetta, hún er meidd í liði í fætinum og reyndi að skjóta aðeins í gær en var sárþjáð og mun því ekki spila með okkur í dag. Hvað verður með framhaldið veit ég jafn mikið og hinn almenni borgari.”



