Hér að neðan fer bein textalýsing úr annarri úrslitaviðureign Snæfells og Hauka en liðin mætast í kvöld í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði. Staðan í einvíginu er 1-0 Snæfell í vil.
Snæfell leiðir nú 2-0 í einvíginu. Sigur í næsta leik tryggir Snæfell Íslandsmeistaratitilinn en takist Haukum að vinna verður fjórði leikur í Hafnarfirði. Þriðji leikurinn er í Stykkishólmi á sunnudag kl. 19:15.
Haukar-Snæfell 72-75 (16-19, 10-18, 22-20, 24-18)
Haukar: Lele Hardy 23/12 fráköst, Margrét Rósa Hálfdanardóttir 15, Íris Sverrisdóttir 10, Dagbjört Samúelsdóttir 8, Gunnhildur Gunnarsdóttir 8/5 fráköst/5 stoðsendingar, Lovísa Björt Henningsdóttir 5/4 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 2, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 1, Þóra Kristín Jónsdóttir 0, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 0, Rósa Björk Pétursdóttir 0, Guðrún Ósk Ámundadóttir 0.
Snæfell: Hildur Sigurðardóttir 30/4 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 16/10 fráköst/5 stoðsendingar, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 15/7 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 13/4 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 1/6 fráköst, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 0, Rebekka Rán Karlsdóttir 0, Eva Margrét Kristjánsdóttir 0, Edda Bára Árnadóttir 0, Berglind Gunnarsdóttir 0, Silja Katrín Davíðsdóttir 0.
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Davíð Tómas Tómasson
Viðureign: 2-0 fyrir Snæfell sem dugir einn sigur til viðbótar til að verða Íslandsmeistari.
____________________________________________________________________________________________________________________________
– 4. leikhluti:
LEIK LOKIÐ – LOKATÖLUR 72-75 fyrir Snæfell
– 3,7 sek og Hildur Sig skorar – fékk víti að auki og kom Snæfell í 72-75. Haukum dugði ekki tíminn sem eftir var og Snæfell er komið í 2-0 með 72-75 sigri
– 17 sek eftir og brotið á Hardy sem fer á vítalínuna, setur fyrra 71-72 og setur seinna 72-72 og jafnar leikinn.
– 33 sek eftir og Hildur Björg afgreiðir sín mál snyrtilega á blokkinni og kemur Snæfell í 70-72 og Haukar taka leikhlé.
– 49 sek eftir þegar Hardy fer á línuna og brennir af báðum skotum! Staðan enn 70-70.
– 70-70 Hardy með stolinn bolta, brunar upp og jafnar metin þegar 1.45mín eru eftir af leiknum! Snæfell tapar svo boltanum í næstu sókn er Berglind stígur á endalínuna og 1.25mín eftir.
– 68-70 Gunnhildur Gunnars með tvö Haukavíti og 2.45mín eftir af leiknum.
– Jóhanna Björk Sveinsdóttir var að fá sína fimmtu villu í liði Hauka. Inn fyrir hana kemur Lovísa Björt en Hildur Björg er á vítalínunni og setur bæði vítin og kemur Snæfell í 66-70.
– 66-68 Íris Sverrisdóttir setur þrist fyrir Hauka, þessi var stór. 3.00mín eftir af leiknum.
– 63-68 Hildur Sig með eitt víti.
– Leikhlé í gangi og Mýrdalssandur með GCD fær að hljóma í græjunum – „Taugarnar þandar“ – á vel við þessa stundina.
– 63-67 Hildur Sig setur tvö víti fyrir Snæfell en gestirnir eru komnir með skotrétt nú þegar 3.47mín eru til leiksloka. Liðsvillur Hólmara eru 3 svo 2 villur til viðbótar skapa skotrétt hjá Haukum.
– 63-63 og Haukum tekst að jafna með þrist frá Lovísu Björt Henningsdóttur en 63-65 Hildur Björg skorar aftur í teignum fyrir Hólmara. Æsast nú leikar!
– 60-63 Hildur Björg Kjartansdóttir með laglega hreyfingu í teignum og skorar fyrir Hólmara. Hildur Björg komin með 10 stig og 9 fráköst.
– 58-60 Hardy með hraðaupphlaupsstoðsendingu á Dagbjörtu og Hafnfirðingar minnka muninn í tvö stig, sex mínútur sléttar eftir af leiknum.
– 56-60 Lele Hardy var fyrst fram og skoraði auðvelda körfu, Haukar opna fjórða 8-3 og 6.40mín til leiksloka þegar Ingi Þór tekur leikhlé. Aftur eru Hólmarar að gera sig seka í upphafi leikhlutans, rétt eins og í þriðja, að mæta ekki nægilega gíraðar inn í leikhlutann með vörnina sína. Þegar þessi Snæfellsvörn smellur eru Haukar einfaldlega í vandræðum. Að sama skapi er það að hjálpa Haukum að ógnin í Írisi, Margréti og Dagbjörtu vex með hverri mínútunni svo það er ekki bara Hardy sem Hólmarar þurfa að hafa áhyggjur af.
– 54-60 og Dabjört er ekkert hætt…var hér enda við að skella niður öðrum þrist. Þessi lokasprettur ætti að verða forvitnilegur, stemmningin hér í Schenkerhöllinni er líka orðin virkilega skemmtileg og áhorfendur vel með á nótunum.
– 51-60 Dagbjört Samúelsdóttir gerir sín fyrstu stig og það er þristur fyrir Haukana og munurinn aftur kominn niður í níu stig.
– 48-60 Hildur Sigurðardóttir með einn rennblautan kinnhest fyrir utan þriggja og það um leið og skotklukkan rann út. Erfitt skot en Hildur sá til þess að boltinn snerti ekkert nema net. Þessi leikmaður er varla hægt, magnað performance hjá henni hér í kvöld.
– Mínúta liðin og enn ekkert skorað í fjórða.
– Fjórði leikhluti er hafinn…

– 3. leikhluti:
– 48-57 Hildur Sigurðardóttir loka þriðja leikhluta með stökkskoti í Haukateignum þegar 11 sekúndur eru eftir. Lokaskot Hauka geigaði og Hólmarar fara því inn í fjórða leikhluta með 9 stiga forystu. Leikhlutinn fór 22-20 fyrir Hauka, fyrsti leikhlutinn sem Haukar gera 20 stig eða meira í þennan leikinn. Hólmarar ætla sér eflaust að þétta vörnina en batamerki Hauka eru vitaskuld þau að fleiri eru farnir að ógna í sóknarleiknum. Margrét Rósa var frábær í þriðja leikhluta en hún og Hardy eru báðar komnar með 15 stig hjá Haukum en Hildur Sigurðardóttir er komin með 20 stig í liði Snæfells.
– 48-55 Íris Sverrisdóttir með Hauka þrist þegar 40 sek eru eftir af þriðja leikhluta.
– 45-55 Alda Leif gerir sín fyrstu stig í leiknum fyrir Snæfell af vítalínunni er hún setur niður síðara vítið.
– 45-54 og 1.48mín til loka þriðja leikhluta. Mistækur lokasprettur hér á báða bóga.
– 45-53 og nú er það Hildur Sigurðardóttir sem sendir niður þrist fyrir Hólmara sem eru óðar að ná fyrri takti eftir brösugar upphafsmínútur í síðari hálfleik.
– 43-50 Helga Hjördís með þrist fyrir Snæfell, stóru leikmenn Hólmara að „fíla“ sig vel hérna fyrir utan þessar mínúturnar. Snæfell heldur Haukum enn í seilingarfjarlægð.
– 41-47 Hildur Björg Kjartansdóttir svarar þessari dembu Hauka með þrist.
– 39-44 Nú það er bara þannig! Margrét Rósa var hér að smella niður þrist og svo 41-44 Hardy eftir stolinn bolta og hraðaupphlaup.
– 36-42 Enn skorar Margrét Rósa fyrir Haukana, Hólmarar ættu að huga betur að Margréti enda illviðráðanleg er hún kemst á skrið.
– 34-39 sex stig í röð hjá Margréti Rósu og 7.32mín eftir af þriðja þegar Ingi Þór tekur leikhlé fyrir Hólmara. Vörn gestanna úr fyrri hálfleik virðist hafa orðið eftir inni í klefa.
– 32-39 Margrét Rósa að svara kallinu fyrir Hauka, kallinu um að fleiri en Hardy taki þátt í sóknarleiknum.
– 30-39 Glæsilegur snúningur hjá Margréti Rósu í teignum og minnkar muninn fyrir Hauka niður í 9 stig.
– 28-37 Lele Hardy opnar leikinn fyrir Snæfell en Guðrún Gróa svarar að bragði 28-39.
– Þá fer síðari hálfleikurinn að hefjast, byrjunarliðin mætt aftur á parketið og það er Snæfell sem byrjar með boltann.
Skotnýting liðanna í hálfleik:
Haukar: Tveggja 36,4% – þriggja 14,3% og víti 66,7%
Snæfell: Tveggja 50% – þriggja 33,3% og víti 71,4%

– 2. leikhluti
– 26-37 og fyrri hálfleik er lokið – síðustu stigin gerði Helga Hjördís Björgvinsdóttir fyrir Snæfell eftir sóknarfrákast sem hún tók sjálf. Snæfell vann annan leikhluta 10-18 og leiða eins og áður greinir 26-37 í leikhléi. Varnarleikur Hólmara hefur verið til fyrirmyndar allan fyrri hálfleikinn og þær Guðrún, Hildur og Helga hafa borið uppi sóknarleikinn. Hjá Haukum er Lele Hardy komin með 11 stig og ekki seinna vænna en að fleiri fari að láta taka til sín á sóknarendanum.
– 26-35 Íris Sverrisdóttir með langþráðan þrist fyrir Hauka þegar 39 sekúndur eru til hálfleiks. Annar þristur Hauka í leiknum í 14 tilraunum, það er ekki gott kaffi.
– 23-35 Hildur setti vítið að sjálfsögðu og komin með 12 stig og 3 stoðsendingar í liði Snæfells.
– 23-34 Hildur Sigurðardóttir skorar eftir hraðaupphlaup og fær villu að auki. Haukar taka leikhlé þegar 1.35mín eru eftir af öðrum leikhluta en hann hefst aftur á vítaskoti hjá Hildi.
– 23-32 Gunnhildur Gunnarsdóttir með gott sóknarfrákast fyrir Hauka og skorar að auki. Haukar engu að síður í gríðarlegu basli gegn vel skipulagðri vörn Hólmara sem hefur haldið Haukum í sjö stigum á jafn mörgum mínútum í öðrum leikhluta. Hreint afbragð þessi vörn gestanna.
– 19-32 Helga Hjördís með þrist fyrir Snæfell og komin með níu stig fyrir Hólmara sem hafa sett niður 4 af 9 þristum sínum í fyrri hálfleik.
– 19-27 Lovísa Björt gerir sín fyrstu stig í leiknum fyrir Hauka með stökkskoti við endalínuna en Hólmarar svara strax 19-29 með körfu úr teignum hjá Guðrúnu Gróu sem er komin í 11 stig.
– 17-25 Hildur Sigurðardóttir með stökkskot og Hólmarar miklu betri hér í upphafi annars leikhluta, vörn Haukakvenna einfaldlega ekki með á nótunum og Bjarni Magnússon tekur leikhlé fyrir Hafnfirðinga þegar 6.26 mínútur eru til hálfleiks og staðan orðin 17-27.
– 17-23 Íris Sverrisdóttir skorar fyrstu stig Hauka í öðrum leikhluta með vítaskoti.
– 16-23 Hildur Sigurðardóttir fér hér strönd af strönd eins og við þýðum það og skorar fyrir Hólmara sem eru að opna annan leikhluta með 0-4 skvettu.
– 16-21 Helga Hjördís skorar fyrstu stigin í öðrum leikhluta fyrir Snæfell. Gerði það eftir laglega stoðsendingu frá Hildi Björgu þar sem Helga fór svo upp endalínuna og skoraði laglega. Helga komin með 6 stig í liði Snæfells.
– Rúm mínúta liðin og staðan enn 16-19 fyrir Snæfell.
– Hólmarar hafa verið í því að óhlýðnast dómurum leiksins og sanka að sér villum, Hildur Björg og Guðrún Gróa báðar komnar með tvær villur eftir 11 mínútna leik. Snæfell má illa við því að fá þessa máttarstólpa í villuvandræði.
– Annar leikhluti er hafinn

– 1. leikhluti
– 16-19 – fyrsta leikhluta lokið og honum lokaði Lele Hardy með erfiðum þrist um leið og flautið gall, fyrsti þristur Hauka í leiknum, ekki seinna vænna. Eftir þennan fyrsta hluta stendur upp úr góð vörn Hólmara en flott barátta í leiknum. Vert fyrir heimakonur að fara betur með boltann og láta hann vinna betur fyrir sig í sókninni.
– 13-19 Guðrún Gróa prjónar sig í gegn og skorar fyrir Snæfell.
– 13-15 Hardy setur tvö víti fyrir Hauka og komin með 8 af 13 stigum liðsins til þessa.
– 11-15 Lele Hardy minnkar muninn fyrir Hauka.
– Hildur Björg Kjartansdóttir komin með tvær villur eftir tæplega sjö mínútna leik svo Ingi Þór tekur enga sénsa og setur Hildi á bekkinn og inn kemur reynsluboltinn Alda Leif Jónsdóttir.
– 14-9 Helga Hjördís Björgvinsdóttir sallar niður þriðja Snæfellsþristinum, þessi fór í spjaldið og ofaní, vonum að hún hafi keypt sér miða í Víkingalottóinu líka.
– Það er jafn góð stemmning í Snæfellsvörninni og í stuðningsmönnum þeirra í stúkunni svo Hafnfirðingar hafa átt í basli með að komast nærri körfunni hér á fyrstu fjórum mínútum leiksins.
– 5-10 Guðrún Gróa með annan þrist fyrir gestina sem eru að finna sig vel hér á upphafsmínútunum.
– 3-5 Hildur Sigurðardóttir setur þrist yfir Haukavörnina en heimakonur hefja leik hér í svæðisvörn eða öllu heldur pressa Haukakonur boltann eftir skoraðar körfur og falla svo í svæðisvörn. Eru að stokka hratt upp á milli maður á mann varnar og svæðisvarnar.
– 2-2 Hildur Sigurðardóttir svarar í nákvæmlega sömu mynt fyrir gestina.
– 2-0 Lele Hardy opnar leikinn með stökkskoti í Snæfellsteignum.
– Þá er þetta komið í gang og það eru Haukar sem vinna uppkastið og eiga fyrstu sókn leiksins.
– Fyrir leik:
– Snæfell leiðir seríuna 1-0 eftir 59-50 sigur í fyrsta leik í Stykkishólmi en vinna þarf þrjá leiki til þess að verða Íslandsmeistari.
– Byrjunarliðin
Haukar: Auður Ólafsdóttir, Margrét Rósa Hálfdánardóttir, Gunnhildur Gunnarsdóttir, Lele Hardy og Jóhanna Björk Sveinsdóttir.
Snæfell: Hildur Sigurðardóttir, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Hildur Björg Kjartansdóttir.
– Verið er að kynna liðin til leiks.
– Dómarar leiksins eru þeir Davíð Tómas Tómasson og Björgvin Rúnarsson. Eftirlitsmaður er Björn Leósson.
– Nú eru um átta mínútur til leiks og ljóst að Chynna Unique Brown verður ekki með Snæfell í kvöld.



