spot_img
HomeFréttirÆsispennandi leikur í Smáranum

Æsispennandi leikur í Smáranum

Það var sannkölluð körfuboltaveisla í gærkvöldi þegar þrír úrslitaleikir í þremur deildum voru spilaðir og var leikur Breiðabliks og Fjölnis í 1. deild kvenna þar alls ekki sístur. Breiðablik vann þennan fyrsta úrslitaleik 75-69.
 
 
Leikurinn byrjaði með smá skotsýningu en liðin virtust ekki bangin við að skjóta boltanum fyrir utan. Blikastelpurnar settu 4 af 5 þristum á meðan að Fjölnisstelpur voru ekki að hitta vel í fyrsta leikhluta fyrir utan teiginn, en þær settu bara 1 af 6 í þristum. Fyrir innan þriggja stiga teiginn var allt annað í gangi. Eins og þeir sem fylgjast með 1. deild kvenna ættu að vita skipta Blikastelpur oft 5 og 5 út af í leikjum hjá sér. Með 4 mínútur eftir í fyrsta leikhluta í stöðunni 17-8 tekur Pétur Már þjálfari Fjölnis leikhlé og Andri Þór þjálfari Breiðabliks nýtti tækifærið og skipti öllu byrjunarliðinu út af. Á undanförnu leiktímabili hefur þetta oft skilað sér en í gær var þetta ekki mjög farsælt þar sem að Blikastelpurnar hittu ekki úr næstu 8 skotum sínum. Grafarvogsstúlkurnar gengu á lagið, náðu að vinna aðeins á og í lok leikhlutans var staðan 20-15, heimamönnum í vil.
 
Pétur Már hefur eitthvað náð til leikmanna sinna í hléinu á milli leikhluta því að Fjölnir tók 10-2 rispu á fyrstu 4 mínútunum annar leikhluta og voru skyndilega komnar með 3 stiga forystu, 22-25. Heimastúlkur virtust þá hrökkva í gang og fóru að svara fyrir stiginn og munurinn hélst allt til hálfleiks. Þess má geta að leikstjórnandi Blika, Berglind, betur þekkt sem Beggó, átti “buzzer-beater” rétt innan við miðju í lok leikhlutans, spjaldið ofan í. Staðan í hálfleik: 34-39, Fjölni í vil.
 
Blikar byrjuðu strax að reyna saxa á forskot Fjölnis en Grafarvogsstúlkur héldu haus og náðu að bægja þeim frá. Fjölnir voru framan af með meiri baráttu sem sást á því hve auðvelt virtist oft að rífa niður sóknarfráköstin og hve illa heimamenn vörðust oft gegn kerfunum þeirra. Ísabella Ósk, ein af unglingalandsliðstelpum Breiðabliks, átti frábærar innkomur í leiknum, tók 6 fráköst, þ.a. 5 sóknarfráköst, stal tveimur boltum og var með 6 stig, öll skoruð í þriðja leikhluta. Þrátt fyrir það voru stúlkurnar úr Grafarvogi enn með forystu í lok þriðja leikhluta: 53-59.
 
Það virtist allt fara í gang hjá Breiðablik í lokaleikhlutanum og með samstilltu átaki tóku heimamenn 16-2 rispu sem Fjölnir virtist ekkert ráða við. Fjölnir hysjaði samt upp um sig og héldu áfram að berjast og með 50 sekúndur eftir setti Mone Peoples, erlendur leikmaður Fjölnis, rándýran þrist og kom muninum niður í tvö stig: 71-69, Blikum í vil. Þá héldu Blikastelpur í langa sókn þar sem Ingunn Erla reif niður sóknarfrákast og kom boltanum á Efemíu sem setti langt tveggja stiga skot til að koma stöðunni í 73-69. Lýsendur leiksins, þeir Haukur og Geiri höfðu oft vísað til gælunafns hennar, “Moneytime”, og hún stóð undir nafni. Eftir þetta urðu mörg mistök beggja megin sem skilaði sér í nokkrum töpuðum boltum hjá báðum liðunum. Fjölnisstúlkur þurftu að byrja að brjóta og þrátt fyrir tvö klikk hjá Jaleesu Butler, erlendum leikmanni Blika, tók Beggó sóknarfrákast, tók villu og innsiglaði sigurinn með því að sökkva tveimur vítaskotum og klára leikinn. Lokastaða 75-69, Breiðablik í vil.
 
Þá hafa Breiðabliksstúlkur unnið fyrsta leik rimmunnar og þurfa bara að vinna einn leik í Dalhúsum næsta fimmtudag kl.19:15 til að komast upp í úrvalsdeild kvenna á næsta leiktímabili. Það kemur í ljós. Sjáumst þar! 
 
Breiðablik: Berglind Karen Ingvarsdóttir 18 stig/9 fráköst, Jaleesa Butler 17 stig/13 fráköst/6 stoðsendingar/3 varin skot, Kristín Óladóttir 9 stig, Efemía Rún Sigurbjörnsdóttir 8 stig, Aníta Rún Árnadóttir 7 stig, Ísabella Ósk Sigurðardóttir 6 stig/6 fráköst, Helga Hrund Friðriksdóttir 4 stig, Guðrún Edda Bjarnadóttir 4 stig, Ingunn Erla Kristjánsdóttir 2 stig, Elín Kara Karlsdóttir 0 stig, Alexandra Sif Herleifsdóttir 0 stig, Helena Mikaelsdóttir 0 stig.
 
Fjölnir: Mone Laretta Peoples 27 stig/8 fráköst, Eyrún Líf Sigurðardóttir 13 stig/8 fráköst, Hrund Jóhannsdóttir 9 stig/11 fráköst/3 varin skot, Erla Sif Kristinsdóttir 8 stig, Kristín Halla Eiríksdóttir 7 stig, Erna María Sveinsdóttir 5 stig, Brynja Pálína Sigurgeirsdóttir 0 stig, Dagbjört Helga Eiríksdóttir 0 stig, Telma María Jónsdóttir 0 stig, Margrét Loftsdóttir 0 stig.
 
Mynd/ Tomasz Kolodziejski
Fréttir
- Auglýsing -