„Þetta er í annað sinn sem ég vinn Barcelona á ferlinum, unnum þá með Roma í Euroleague en þetta er einnig aðeins annar sigur Zaragoza í sögunni gegn Barcelona,“ sagði Jón Arnór Stefánsson en hann og Zaragoza unnu magnaðan sigur á Barcelona í ACB deildinni á Spáni í gær. Grettistak þarf til að leggja lið eins og Barcelona og Real Madrid en Jón segir Madrídinga ofboðslega sterka um þessar mundir en piltarnir úr höfuðstaðnum hafa unnið alla deildarleikina sína til þessa og eru í færi á að vinna allt sem í boði er þetta tímabilið.
„Þetta var rándýrt og úrslitin hagstæð því nú erum við komnir þremur sigrum á undan næstu þremur liðum fyrir neðan okkur,“ sagði Jón en hvað þarf til að leggja lið eins og Barcelona að velli?
„Ég fékk einmitt þessa spurningu í gær á blaðamannafundi fyrir leikinn og svaraði að Barcelona mætti ekki eiga sinn besta dag, allt þyrfti að detta niður hjá okkur og að stuðningsmennirnir myndu láta vel í sér heyra og það var akkúrat það sem gerðist! Við stjórnuðum hraða leiksins, þeir hittu illa, skotin okkar fóru niður og það er bara svona fullkominn leikur sem maður þarf til að vinna svona stórlið.“
Börsungar eru vel skipaðir enda liðið að taka þátt í Meistaradeild Evrópu (Euroleague) og fyrir leikinn í gær sagði Jón þá hafa litið ansi vel út eftir videofundinn hjá Zaragoza þar sem lið Barcelona var skoðað í þaula. „Þeir eru vel skipaðir, 14 sterkir menn en þurftu að hvíla tvo erlenda leikmenn í gær þar sem þeir hafa of marga útlendinga. Á 20 mínútna videofundi fyrir leikinn var farið í gegnum alla þessa 14 gæja og þegar maður fór út af fundinum héldum við hreinlega að við ættum ekki séns, enda litu þeir mjög vel út.“
Aðspurður hvort frammistaða Zaragoza á tímabilinu væri ekki bara á pari við það sem liðið var að gera í fyrra vildi Jón meina að liðið væri jafnvel komið aðeins lengra.
„Þetta virðist vera á pari og vel það miðað við hvað við vorum að gera í fyrra, við áttum að fara lengra í Evrópudeildinni (Eurocup) miðað við liðin sem eru þar núna. Þar áttum við að gera betur en það voru kannski öll þessi ferðalög sem voru ný fyrir flestum og svo áttum við bara lélega leiki þarna inn á milli. Við komumst í undanúrslit í Konungsbikarnum eftir sigur á Malaga svo staðan á okkur er góð og við erum á leiðina í úrslitakeppni svo það hefur eiginlega verið bætt í frá síðasta tímabili,“ sagði Jón en Zaragoza er í 6. sæti deildarinnar með 16 sigra og 10 tapleiki.
„Við eigum t.d. eftir Unicaja heima en við unnum þá úti í deildinni svo við erum á ágætis málum en það getur margt gerst á átta vikum en það er upp á okkur komið að klára þetta og vera í sem bestri stöðu.“
Real Madrid vermir toppsætið í ACB deildinni og hafa unnið alla 26 deildarleiki sína. Jón segir að liðið sé nánast ósnertanlegt í dag. „Til að vinna leik eins og í gær þarftu að vera nægilega klikkaður til að segjast ætla að gera það og meina það, að vinna Madríd núna, það væri rosalega erfitt að geta bæði sagt það og meint það. Ef við myndum mæta þeim á morgun, og nú er maður mikill keppnismaður, þá yrði það einfaldlega of mikið. Madríd hefur sterkan kjarna og ég býst við því að þeir taki þetta allt saman í ár. Þeir eru að fara af stað í topp 8 í Meistaradeildinni og eru með gífurlegt sjálfstraust. Þeir fara nokkuð auðveldlega í gegnum leikina sína og það á við í Meistaradeildinni líka. Ég hef bara ekki séð svona lið í langan tíma í Evrópu. Þeir eru pakkaðir í hverri stöðu og ég vona bara að þeir taki allt og sýni að þeir eru langbestir og vona bara að þeir fari ekki að „choke-a“ eitthvað í lokin.“
Þegar í sjálfa úrslitakeppnina verður komið munu væntanlega flestra augu beinast að Real Madrid og Barcelona. Jón Arnór segir Zaragoza geta spilað alvöru bolta með og gegn öllum öðrum liðum deildarinnar.
„Það yrði óhagstætt að lenda á móti öðru hvoru liðinu í úrslitakeppninn. Við munum stríða þeim liðum sem eru fyrir ofan okkur og þátttakan í úrslitakeppninni fyrir önnur lið en Barcelona og Real Madrid er bara eins og að vinna titil. Barcelona og Real Madrid eru sterkust og hin liðin hirða leyfarnar,“ sagði Jón en sér ekkert fyrir endann á þessu einoki risanna á Spáni?
„Ég veit það ekki, kannski ef einhver sterkefnaður Sheikh kemur inn í þetta með einhverjar svakalegar fjárhæðir, þetta er bara alveg eins og í fótboltanum. Real Madrid og Barcelona eru klúbbar með það mikla sögu og það fjársterkir að erfitt er að keppa við það og hvað þá með tilliti til efnahagsástandsins í dag, það kemur samt að þessu,“ sagði Jón sem ætlaði að nýta daginn í afslöppun en leikmenn Zaragoza fengu frí í dag eftir sigurinn frækna í gær.



