Góð kynding kallar á andsvar og nú er það komið. Jón Gauti Dagbjartsson framkvæmdastjóri KKD Grindavíkur lætur sitt ekki eftir liggja nú þegar Gunnar Örlygsson formaður KKD UMFN er búinn að kynda undir Grindvíkingum fyrir oddaleikinn næsta fimmtudag.
Jón Gauti svarar á sinni Fésbókarsíðu stöðufærslu Gunnars með þessum orðum:
„Það er almenn vitneskja hér í Grindavík að Reykjanesbæjar-búar hafa alltaf snúið bakinu í rokið og það hafur aldrei gefið vel af sér…..á meðan við hér réttu megin á Reykjanesskaganum horfum til stafns, stöndum gleiðir og störum í sortann. Við sækjum í öllum veðrum og höfum gaman að því…..þess vegna erum við góðir. Ég bendi Gunna kallinum hinsvegar á, að ferðin til Grindavíkur gæti orðið Njarðvíkingum um megn þar sem þeir teljast óvanir að sækja gegn rokinu en það sem er jákvætt fyrir þá, er að ferðin heim verður þeim léttari með skottið á milli lappanna. Verið velkomnir Reykjanesbæingar…..við tökum á “móti” ykkur.“
Menn eru því byrjaðir að róa sálfræðiróðurinn enda ekki seinna vænna, sjálf oddaviðureignin er á fimmtudag og hvorugur aðilinn lætur á veikleikum bera. Staðan í einvíginu er 2-2 – oddaleikurinn á fimmtudag kl. 19:15 og það verður pottþétt uppselt, áhugasamir ættu að fara að huga að því að tryggja sér miða.
Mynd/ Jón Gauti á sjó – hvort það hafi verið „brjálað sunnan rok“ skal ósagt látið.



