Í fyrsta sinn síðan úrslitakeppnin í karlaflokki hóf göngu sína gerist það nú fjórða árið í röð að Suðurnesjaveldin Njarðvík og Keflavík leika ekki í lokaúrslitum Íslandsmótið. Á síðasta tímabili, eins og gefur að skilja, gerðist það í fyrsta sinn þrjú tímabil í röð að Njarðvík og Keflavík væru ekki í úrslitum.
Njarðvík og Keflavík tóku, annað hvort bæði eða í sitthvoru lagi, þátt í lokaúrslitum frá 1984-1999! Árið 2000 mættust Grindavík og KR í úrslitum í fyrsta sinn og var sú úrslitaviðureign söguleg fyrir þær sakir að Njarðvík og Keflavík komust ekki á stóra sviðið þá leiktíðina.
Þrjú tímabil í röð er Grindavík nú að leika til úrslita, þetta er í annað sinn í sögu Grindavíkur sem félagið leikur til úrslita þrjú ár í röð en það gerðis 1994-1996. Grindvíkingar hafa mest leikið fjögur ár í röð til úrslita því þeir voru einnig í úrslitum 1997. Á þessum fjórum árum 1994-1997 vann Grindavík einu sinni, 1996, svo þessi þriggja ára vera þeirra í dag í lokaúrslitum er ábatasamari en sú fyrri.
Njarðvíkingar eru það lið sem oftast allra liða hafa orðið Íslandsmeistarar eftir úrslitakeppni eða samtals 11 sinnum. Keflavík fylgir þar fast á hæla þeirra með 9 sigra og KR í 3. sæti með 5 sigra. Grindavík er í 4. sæti með 3 sigra en aðeins sex félög hafa orðið Íslandsmeistarar eftir úrslitakeppnin því saman í 5.-6. sæti eru Haukar og Snæfell með einn titil.
Ólíkt því sem áður var þá er ekkert Suðurnesjalið með Grindavík í úrslitum síðustu þriggja tímabila. 2012 vann Grindavík sigur á Þór, 2013 vann Grindavík sigur á Stjörnunni og nú 2014 er Grindavík að leika til úrslita gegn KR. Tímabilin 1994-1997 lék Grindavík allta til úrslita gegn annað hvort Keflavík eða Njarðvík. Grindvíkingar eru því teknir við Suðurnesjakeflinu í úrslitum Íslandsmótsins.
– Úrslitakeppnin í karlaflokki hófst árið 1984.
– Njarðvík eða Keflavík tóku þátt í úrslitaseríu frá árinu 1984-1999. Árið 2000 léku Grindavík og KR til úrslita.
– Frá 2001- 2008 voru Njarðvík eða Keflavík alltaf í úrslitum en 2009 mættust Grindavík og KR aftur.
– Árið 2011 gerðist það í fyrsta og eina sinn í íslenskum körfuknattleik að ekkert lið frá Suðurnesjum tók þátt í lokaúrslitum.
– Á síðustu leiktíð var það í fyrsta sinn sem þrjú ár í röð voru hvorki Njarðvík né Keflavík í úrslitum.
– Á þessari leiktíð er það í fyrsta sinn síðan árið 1984 sem hvorki Njarðvík eða Keflavík eru í úrslitum fjögur ár í röð.



