Keflavík er Íslandsmeistari í 9. flokki kvenna eftir öruggan sigur á Ármanni í úrslitaviðureign liðanna sem fram fór í Smáranum í Kópavogi. Keflvíkingar tóku forystuna strax á fyrstu augnablikum leiksins og litu aldrei til baka. Vel spilandi lið sem hitti stórkostlega framan af leik og það reyndist Ármenningum um megn. Lokatölur 46-29 þrátt fyrir flottan endasprett Ármenninga. Birna Valgerður Benónýsdóttir var verðskuldað valin besti leikmaður úrslitaleiksins með 14 stig og 9 fráköst.
Keflvíkingar byrjuðu betur, komust í 11-0 eftir þrist frá Elsu Albertsdóttur og Ármenningar voru að sama skapi ekki að finna fjölina í skotunum sínum. Margrét Hlín Harðardóttir losaði þó um stigaþurrðina hjá Ármanni og minnkaði muninn í 12-2 en Keflvíkingar leiddu 19-6 eftir fyrsta leikhluta.
Birna Valgerður Benónýsdóttir tók við keflinu fyrir Keflvíkinga í öðrum leikhluta en heilt yfir í fyrri hálfleik léku Keflvíkingar óeigingjarnan bolta og skilaði það þeim 31-13 forystu í leikhléi. Birna var með 12 stig í hálfleik í liði Keflvíkinga en hjá Ármanni var Jónína Þórdís með 5 stig. Vörn Ármenninga var betri í öðrum leikhluta en þeim fyrsta og ef þær hertu enn frekar tökin í síðari hálfleik áttu þær kost á að framkalla spennuleik. Birna Valgerður átti þó tilþrif fyrri hálfleiksins þegar hún reif í sig varnarfrákast, brunaði upp völlinn og skoraði af öryggi þegar fjórar sekúndur lifðu fyrri hálfleiks.
Í þriðja leikhluta hertu Keflvíkingar róðurinn í vörninni, Ármenningar virtust hafa misst trúnna á skotunum sínum og gerðu aðeins þrjú stig allan leikhlutann! Keflvíkingar með Þórönnu Hodge-Carr í fantaformi sigu framúr og leiddu 43-16 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Sigur Keflvíkinga var aldrei í hættu í lokaleikhlutanum en Ármenningar héldu þó ótrauðir áfram og náðu að minnka muninn í 44-23 og unnu leikhlutann 3-13 en skaðinn var þegar skeður, Keflvíkingar höfðu byggt upp of stórt forskot og lönduðu að endingu 46-29 sigri.




