spot_img
HomeFréttirKR-Grindavík: KR 2-1 Grindavík

KR-Grindavík: KR 2-1 Grindavík

Hér að neðan fer bein textalýsing úr þriðju úrslitaviðureign KR og Grindavíkur í Domino´s deild karla. Staðan í einvíginu er 1-1 en í kvöld er leikið í DHL-Höllinni í Vesturbænum og hefjast leikar kl. 19:15.  
 
Fjórði leikhluti
 
– Leik lokið: 87-58 fyrir KR og staðan orðin 2-1 KR í vil. Liðin mætast aftur í Röstinni á fimmtudag, þar geta KR-ingar orðið Íslandsmeistarar eða Grindavík náð fram oddaleik með sigri.
 
– 82-54 og aðeins mínúta eftir af kjöldrætti Grindvíkinga…þvílík frammistaða hjá KR-ingum hér í kvöld. 
 
– Jón Orri Kristjánsson kemur KR í 74-52 með tröllatroðslu.
 
– 70-50 og 5.56mín til leiksloka…flestir byrjunarliðsmenn liðanna eru farnir á tréverkið. 
 
– Miðja þeirra KR-inga hefur sungið hástöfum í allt kvöld, það er þó einn „tenór“ í salnum sem á köflum hefur verið háværari og það er enginn annar en gamli landsliðsmiðherjinn Fannar Ólafsson. Hann er vafalítið einn fremsti „heckler“ landsins.
 
– 66-46 Sigurður Gunnar brýst í gegnum KR vörnina og skorar, munurinn 20 stig og 8 mínútur til leiksloka. Það minnsta sem Grindavík hefur skorað á Íslandsmótinu er 63 stig í tapi gegn Keflavík í desember. Vafasamt met sem þeir virðast ætla að „bæta“ í kvöld.
 
– Fjórði leikhluti er hafinn
 
Fyrirliðinn Þorleifur Ólafsson er hér á bak við sína menn, bersýnilega áhyggjufullur.
 
Þriðji leikhluti 16-9 (65-42)
 
– Þriðja leikhluta er lokið og staðan er 65-42 fyrir KR. Röndóttir Vesturbæingar eru að gera allt rétt og hafa fyrir nokkru síðan slökkt algerlega í Grindvíkingum. KR vann leikhlutann 16-9.
 
– 64-42 Óli Óla með þrist og tekur svo ruðning á Brynjar Þór sem er mjög svo ranglega útfærður sem villa á Ólaf, bersýnilega röng ákvörðun dómaranna og eitthvað hefði nú heyrt á pöllunum ef munurinn væri minni.
 
– 60-37 Martin Hermannsson prjónar sig glæsilega í gegnum Grindavíkurvörnina og fer svo beint í það að taka ruðning á Jón Axel Guðmundsson, þessi leikur er búinn gott fólk, það er deginum ljósara.
 
 - 56-37 eftir sjö mínútur í þriðja leihkluta er staðan aðeins 7-4 fyrir KR, þetta er stirt og nýtingin döpur en KR situr þéttingsfast við stýrið og fátt sem bendir til þess að Grindvíkingar eigi afturkvæmt. 
 
– 56-35 Darri Hilmarsson með stökkskot fyrir KR. Heimamenn eru að leika sér að Grindvíkingum…þriðja leiks heilkennið að dúkka upp í röðum Grindavíkur? Gulir og glaðir hafa ekki unnið tvo síðustu leiki nr. 3 í úrslitum, sá þriðji virðist vera á hraðferð í heiminn.
 
– 54-35 Demond Watt með aðra troðslu, maðurinn lætur virkilega reyna á festingar körfunnar, „Hammer Time“
 
– Staðan 52-35 og KR að rúlla upp frákastabaráttunni líka, 36-22.
 
– 51-33 Demond Watt treður með tilþrifum muninum upp í 18 stig.
 
– Þriðji leikhluti er hafinn…
 
 
Hálfleikstölur: 49-33
 
KR: Demond Watt 12 stig – 12 fráköst, Brynjar Þór 8 stig, Darri Hilmarsson 8 stig.
Grindavík: Lewis Clinch 11 stig – 5 fráköst, Sigurður Gunnar 7 stig – 4 fráköst.
 
Skotnýting liðanna í hálfleik:
KR: Tveggja: 41% – þriggja 46% og víti 50%
Grindavík: Tveggja 39% – þriggja 29% og víti 50%
 
Annar leikhluti: 30-16 (49-33)
 
– Tíminn rennur út og Grindvíkingar brjóta á Pavel í teigskoti…Pavel setur bæði vítin og Grindvíkingar leiða 49-33 í hálfleik.
 
– 47-33 Clinch með tvo þrista fyrir Grindavík með skömmu millibili.
 
– 43-27 og 1.50mín eftir…farið að hitna verulega í kolunum. Gestirnir úr Grindavík fá ekkert á sóknarendanum gegn sterkri vörn KR og það er farið að bera á pirringi.
 
– Annar leikhluti hefur verið í einkaeigu KR síðustu sex mínútur, Grindvíkingar verða að gyrða í brók ef þeir ætla sér ekki að missa heimamenn of langt frá sér. 
 
– 39-24 Darri með þrist, er 2-3 í þristum núna en Óli Óla svaraði strax í sömu mynt…staðan 39-27 og leikhlé í gangi.
 
– Stundum virðist sem það sé ólöglegt athæfi að verja skot á Íslandi, Magni að blokka Sigurð Þorsteins og fær villu sem hann var ekki par sáttur við en þetta var önnur villan hans Magna.
 
– KR opnaði annan leikhluta 17-6 á fyrstu fimm mínútunum í öðrum leikhluta.
 
– 32-21 Brynjar Þór með þrist og munurinn orðinn 11 stig, allt að ganga upp hjá einbeittum KR-ingum á meðan Grindvíkingar finna ekki taktinn.
 
– 29-21 Ingvaldur Magni Hafsteinsson gott fólk var að stela boltanum, brunaði upp sem spretthlaupari væri og Evrópu-tróð með tilþrifum. Glæsileg tilþrif hjá reynsluboltanum, 6.49mín eftir af fyrri hálfleik og Sverrir Þór tekur leikhlé fyrir Grindvíkinga.
 
– 25-19 Darri Hilmarsson með þrist fyrir KR, í síðasta leik hér í DHL setti Darri 5 af 6 þristum sínum og setti þar með persónulegt met á tímabilinu, ætlar kallinn í annan eins ham í kvöld?
 
– 22-19 Siggi Þorsteins skorar fyrir Grindvíkinga í teignum.
 
– 22-17 Brynjar Þór opnar annan leikhluta fyrir KR með þriggja stiga körfu.
 
– Annar leikhluti er hafinn…
 
 
Fyrsti leikhluti: 19-17
 
– Fyrsta leikhluta er lokið, staðan 19-17 fyrir KR…líflegur leikhluti. Demond kominn með 8 stig í liði KR en hjá Grindavík er Ómar kominn með 6 stig en hann, Daníel og Ólafur eru allir komnir með tvær villur.
 
– Lob-sending sem virkaði hjá Grindavík, Siggi Þorsteins jafnar 17-17.
 
– 17-15 og hér áðan var Brynjar Þór Björnsson í fyrsta sinn á tímabilinu að brenna af tveimur vítaskotum í röð. Þessi frammistaða manna hér á vítalínunni í DHL er 3-11 samtals hjá báðum liðum, verra en vandræðalegt drengir, upp með sokkana.
 
– 15-13 og við erum stödd í leik þrjú í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn og menn eiga í mesta basli með að rusla niður vítaskotum…koma svo herramenn, fáið ekki auðveldari skot.
 
– 11-11 og Ólafur Ólafsson kominn með tvær villur eftir 5 mínútna leik, inn í hans stað í Grindavíkurliðinu kemur Jón Axel Guðmundsson.
 
– 10-9 Ólafur Ólafsson fer upp endalínuna og skorar, fær villu að auki en brennir af vítinu, Grindvíkingar ekkert að hámarka möguleikana þessar mínúturnar.
 
– 8-4 …og Martin svarar með þrist en fær hann strax til baka í bakið 8-7 þar sem Clinch vildi líka vera með. 
 
– 5-4 Ómar Örn skorar eftir „American footbal“ sendingu frá Jóhanni Árna og fær villu að auki en brenndi af vítinu.
 
– 3-2 Martin opnar fyrir KR með þriggja stiga körfu. 
 
– 0-2 Ómar Örn gerir fyrstu stig leiksins fyrir Grindavík eftir stoðsendingu frá Jóhanni Árna.
 
– Jæja…þetta er hafið og það eru heimamenn í KR sem vinna uppkastið. Góða skemmtun!
 
Fyrir leik: 
 
– Þvílíkt upplifelsi sem það hlýtur að vera fyrir litlu guttana að fá að taka svona þátt í kynningu á KR-liðinu, vel gert!
 
– Þetta er að bresta á, verið er að kynna liðin til leiks.
 
– Af gefnu tilefni minnum við fólk á að Daníel Guðni Guðmundsson leikmaður Grindavíkur verður 28 ára gamall á þessu ári.
 
– Byrjunarliðin eru þau sömu og áður:
KR: Pavel Ermolinskij, Martin Hermannsson, Darri Hilmarsson, Helgi Magnússon og Demond Watt Jr.
Grindavík: Earnest Lewis Clinch Jr., Jóhann Árni Ólafsson, Ólafur Ólafsson, Ómar Örn Sævarsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson
 
– Hér má nálgast beina tölfræðilýsingu frá leiknum: http://live.baskethotel.com/kki/ 
 
– Feðgarnir Sturla Örlygsson og Sigurður Dagur Sturluson leikmaður Stjörnunnar voru að ganga í hús og taka sér sæti KR megin í stúkunni. Haukur Harðarson íþróttafréttamaður á RÚV er mættur og líkast til á frívakt, tengdafaðir hans Páll Kolbeinsson hefur skyldað tengdasoninn í að mæta. Það lætur sig enginn vanta á þennan leik, Svali og Gaupi að lýsa, Óskar Ófeigur er mættur á tölfræðina, Karl West frá Leikbrot.is er í húsinu með allar vélar hlaðnar og klárar, Baldur Beck frá NBA Ísland er að sjálfsögðu mættur sem og Halldór Gunnarsson úr hljómsveitinni Þokkabót.
 
– Fólk streymir að…ekki langt í að fólk þurfi að taka sér stöður aftan við körfurnar (22mín í leik)
 
– KR vann fyrsta leikinn í úrslitunum 93-84 en Grindavík jafnaði einvígið 1-1 með 79-76 sigri í leik tvö.
 
– Dómarar leiksins eru þeir Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson og Jón Bender 
 
Ungir iðkendur úr röðum KR njóta sín í útsendingunni ásamt hinum margreynda Guðjóni Guðmundssyni
Fréttir
- Auglýsing -