Mikilvægi Chris Bosh fyrir Miami Heat liðið sást augljóslega í leik 4 Miami gegn Indiana í gærkvöldi. Bosh tók sig til og skoraði 8 fyrstu stig Miami.
Eitthvað hefur þetta komið flatt upp á leikmenn Indiana og þá sérstaklega Roy Hibbert sem var algerlega andlaus og fjarverandi í þessum leik.
Indiana tókst að hanga í leiknum fram að hálfleik en í síðari hálfleik juku Heat forystuna hægt og rólega. 102-90 sigur Miami Heat og örugg 3-1 forysta staðreynd.
LeBron James leiddi sína menn með 32 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Chris Bosh setti 25 stig og skaut 7/12 utan að velli. Paul George setti 23 stig fyrir Pacers og David West bætti við 20 stigum og 12 fráköstum. Lítið fór fyrir Lance Stephenson í leiknum. Roy Hibbert var stigalaus og tók fimm fráköst á 22 mínútum.
Serían færist nú aftur til Indiana þar sem Pacers eru komnir með bakið upp við vegginn. Tapið í leik 2 er orðið ansi dýrt og orðið deginum ljósara að þeir verða að vinna næstu þrjá leiki til að halda sér á lífi. Ómögulegt verk eins og Heat eru að spila núna.



