Eins og fram kom í vikunni þá hefur Logi Gunnarsson ákveðið að halda sig í heimahögum og mun spila með Njarðvík næstu tvö árin. Logi hefur verið í atvinnumennsku síðustu 11 ár að undan teknum tveimur árum og segist sáttur með sinn feril. “Já ég held að þetta séu endalok míns ferils sem atvinnumaður erlendis en aldrei að segja aldrei. Ég kveð þennan tíma hinsvegar sáttur en á eftir að sakna þess. Þetta var viss lúxus að flakka á milli landa og kynnast menningu og fólki víða um heim þannig að það er ákveðin söknuður í því.” sagði Logi
En var Logi í viðræðum við einhver lið eða höfðu einhver tilboð borist.
“Já ég fékk nokkuð spennandi tilboð frá Grikklandi en maður veit aldrei með hvenrig launagreiðslur þarlendis enda og svo voru einhverjar þreyfingar í Frakklandi og Svíþjóð en þetta er dýr pakki að vera með stóra fjölskyldu þannig að niðurstaðan varð Njarðvík. Ég var nú ekki í viðræðum við nein önnur lið hérna heima en það voru óformlegar fyrirspurnir eftir síðasta tímabil sem fóru ekkert lengra. Ég sagðist þá ætla að vera í Njarðvík ef ég yrði á íslandi.”
“Nú byrjar krakkarnir í skóla hérna heima á íslandi og ég held áfram með mitt háskólanám þannig að þetta er bara eins og það á að vera.” sagði Logi að lokum.



