spot_img
HomeFréttirLeikurinn í kvöld!

Leikurinn í kvöld!

Það verður í kvöld sem að úrslitin koma til með að ráðast að miklu leyti fyrir íslenska A-landsliðið í körfubolta þegar þeir leika gegn Bretum í Lundúnarborg nánar tiltekið í Koparkassanum í ólympíuþorpinu sem var fyrir tveimur árum.  Liðið mun halda til æfingar nú í hádeginu, létt skotæfing að sögn þjálfara liðsins.  Fín stemning og gott fas virðist vera yfir liðinu hér ytra en um leið spenningur mikill.  Þeir Bretar sem við höfum spjallað við vita varla að enska úrvalsdeildin í fótbolta er byrjuð og eru Bretarnir einnig einbeittir með öllu að þessum stórleik. 
 
Þeir vita einnig um mikilvægi leiksins og ætla sér að sjálfsögðu að gefa allt sitt í leikinn í kvöld. Líkast til telja þeir að tapið á Íslandi hafi einungis verið slys af þeirra hálfu og ætla að bæta upp fyrir það með öllum ráðum og taka vel á íslensku strákunum. Koparboxið tekur um 5000 sæti og í gærkvöldi höfðu þá þegar verið seldir 3000 miðar og áttu þeir von á að höllin yrði full.  Á heimasíðu breska liðsins kallar þjálfari þeirra Joe Prunty eftir því að stuðningsmenn þeirra mæti til leiks með læti og hvetji lið sitt til dáða.  Í samtali í gær við Prunty sagðist hann vera búin að gera sínu liði ljóst að þeir þurfa að spila í allar 40 mínútur leiksins til að eiga möguleika. 
 
Íslenska liðið hefur 12 stiga forskot fyrir leik en hver og einn einasti leikmaður sem undirritaður hefur rætt við segist ekki pæla í neinu forskoti heldur bara að Ísland ætlar sér sigur í leiknum og Hlynur Bæringsson sagði meira að segja að 1 stigs tap yrðu vonbrigði. Ein breyting hefur orðið á liðinu frá því í leiknum sem háður var í Laugardalshöll, Jón Arnór Stefánsson okkar skæðasti körfuknattleiksmaður síðasta áratuginn eða svo hefur ákveðið að taka slaginn og það munar um minna. Jón hefur verið hógvær í viðtölum og segist vera einungis hér til að aðstoða liðið sem hefur hingað til verið að spila fantavel, en það vita svo sem allir mikilvægi hans í slíkum leik. 
 
Aldrei áður hefur liðið verið jafn nálægt því að komast á stórmót og möguleikarnir felast að miklu leyti í því að annað hvort vinna leikinn í kvöld sem myndi svo gott sem tryggja seðilinn á EM 2015 eða þá að tapa með minna en 12 stigum.  
 
Leikurinn hefst klukkan 19:35 í kvöld eða klukkan 18:35 á Íslandi. Leikurinn er sýndur í beinni á RÚV Íþróttum og bein textalýsing á netinu verður í höndum Morgunblaðsins og Vísis en við hér ætlum að reyna að hafa viðtöl fyrir leik, í hálfleik og svo að sjálfsögðu eftir leik ásamt umfjöllun. 
Fréttir
- Auglýsing -