spot_img
HomeFréttirStóra stundin runnin upp!

Stóra stundin runnin upp!

Lokaleikur Íslands í undankeppni Evrópumeistaramótsins 2015 fer fram í kvöld og þá ræðst endanlega hvort Ísland muni í fyrsta sinn í körfuknattleikssögu þjóðarinnar tryggja sér sæti í lokakeppni risamóts.
 
 
Viðureign liðanna hefst kl. 19:30 í Laugardalshöll og er uppselt á leikinn. Bosníumenn eru enn ósigraðir í riðlinum en okkar menn stefna ekki að neinu öðru en að færa gestum sínum sinn fyrsta ósigur. Bosnía hafði tíu stiga sigur í fyrri leiknum þar sem Mirza Teletovic gerði íslenska liðinu skráveifu en hans krafta verður ekki við að njóta í ranni Bosníumanna í kvöld þar sem hann er fjarverandi af persónulegum ástæðum.
 
Ekkert er enn í hendi eins og þegar hefur komið fram en sigur gegn Bosníu í kvöld fellir björninn næsta víst og tryggir Íslandi sæti á EM á næsta ári. Ísland er ekki óháð úrslitum annarra leikja í kvöld og því ekkert hægt að meitla í stein uns lokaflautið gellur.
 
Auðvitað mæta allir í bláu í kvöld og láta vel í sér heyra – Áfram Ísland!
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -