Axel Kárason er kominn aftur til Danmerkur eftir landsliðsævintýrið hvar hann tók þátt í að tryggja Íslendingum sæti í lokakeppni EuroBasket 2015. Axel er við nám í Danmörku og verður með Værlöse í úrvalsdeildarslagnum á komandi tímabili. Hann segir spennandi tíma framundan því líkast til hafi „þeir hlustað á tuðið í honum.“
„Þetta verður áhugavert býst ég við. Nýr þjálfari frá Bandaríkjunum, sem er samt nokkuð kunnugur því hann spilaði hjá Værløse fyrir rúmum áratug. Eins og venjulega verðum við með ungt lið, misstum nokkra stráka til Bandaríkjanna í háskóla en fáum nokkra gutta upp í staðinn. Það jákvæðasta er að það á að setja meira púður í meistaraflokkinn en undanfarin ár.
Liðin í deildinni hafa verið að bæta umgjörðina og auka “atvinnumennskuna” í öllu sem viðkemur liðinu, og það var einfaldlega kominn tími á að stökkva á þann vagn eða pakka saman. Þannig að þeir hafa líklega hlustað á tuðið í mér varðandi þessa hluti síðastliðið vor, og ég er bara nokkuð bjartsýnn á að við fáum meira út úr þeim mannskap sem við höfum miðað við undanfarin ár. Horfði á æfingu í gær (tók gamla manninn á þetta og bað um frí fyrst ég var nýlentur) og sýnist á öllu að við munum spila small ball að íslenskum hætti,“ sagði Axel en Værlöse missti næstum sæti sitt í dönsku úrvalsdeildinni eftir síðasta tímabil. Liðið féll en hélt sæti sínu þar sem ekkert annað lið átti erindi upp í úrvalsdeildina.
„Stevnsgade (frá Nørrebro hverfinu) var að bíða eftir svari frá Kaupmannahafnarborg um hvort að þeir ætluðu að borga nauðsynlegar breytingar á íþróttahúsinu þeirra, en hin liðin kusu að bíða ekki eftir því og frekar halda okkur í deildinni,“ sagði Axel sem hefur síðustu ár verið einn af lykilmönnum Værlöse í danska boltanum og vafalítið engin breyting á því á komandi tímabili.
Fyrsti leikur Værlöse í dönsku úrvalsdeildinni er þann 8. október þegar liðið heimsækir Team FOG Næstved á útivelli.



