„Nýliðar“ Fjölnis gerðu sér ferð í Hólminn í sínum fyrsta leik í deildinni í vetur þar sem Snæfellingar biðu spenntir en liðunum báðum er spáð sætum í neðri hluta Dominosdeildarinnar.
Leikurinn byrjaði með þokkalegu tempói og þegar leið á fyrsta hluta einkenndist hann af stuttum sóknum, fáum sendingum, snöggum skotum og hlaupum fram og til baka. Snæfellsmenn stoppuðu sóknir Fjölnis sem voru ekki nægjanlega hreyfanlegar og sátu þá bara eftir með auðvelda tapaða bolta. Heimamenn gengu á lagið og fóru úr 9-8 í 21-8. William Nelson og Austin Magnús Bracey voru sprækir Snæfellsmegin og Daron Lee Sims virkaði einn á báti hjá Fjölni. Ólafur Torfason þekkir fjalirnar þarna vel og kom Fjölni nær með góðum þrist 21-13 og Sims átti svo massatroðslu í lok fyrsta fjórðungs og staðan 21-15 fyrir Snæfell.
Fjölnismenn héldu svo áfram að sækja á og náðu þessu niður í 1 stig 29-28 en áttu einhvernvegin ekki alveg upp í allan tankinn og Snæfell sprengdu sig frá þeim 36-28. Daron Sims var kominn með 17 stig þarna og vantaði meira framlag frá fleirum en meiri varkárni var í herbúðum liðanna um tíma og hvorugt lið til í að leyfa hinu að dansa frítt. Snæfellingar voru fastari fyrir og leiddu í hálfleik 36-31 og virtist fátt eða ekkert koma þeim úr jafvægi og voru nokkuð kyrrlátir þó Fjölnis menn reyndu áhlaup af og til.
William Nelson hjá Snæfelli var hægt og bítandi að vinna sig inn í leikinn og varð bara sprækari með hverri mínútu og var kominn með 14 stig og 9 fráköst. Austin Bracey var kominn með 11 stig. Daron Lee Sims vó þungann af sóknum Fjölnis og var kominn með 22 stig og ljóst að hann héldi þessu ekki uppi einn síns liðs. Ólafur Torfa var næstur með 5 stig.
Eins og grunur lék á fór það þannig að Sims var einfaldlega stoppaður og skoraði ekki stig í þriðja hluta og Snæfellsmenn voru yfir 61-49 og höfðu gert 10-0 áhlaup úr 43-36 í 53-36 og virtust hafa þennan leik vel í sínum höndum. William nokkur Nelson fór mikinn þarna með 12 stig og 5 fráköst og barðist vel fyrir hverjum bolta og gerði engin mistök en hann endaði líka með 50 í framlagstig. Skotnýting kappans var hreint með ágætum 70% í tveimur og 57% í þremur.
Snæfell jók á forystuna og átti undirritaður fyrir leikinn von á beittari Fjölnismönnum sem eiga örugglega eitthvað inni síðar en þá vantar einhverja breidd, vörn þeirra var ringluð og sóknarleikur oft hægur. Sigurður Þorvaldsson fann svo þessa margfrægu fjöl í fjórða hluta og smellti þeim þá þremur þristunum. Fjölnir saxaði á í 71-61 en langt í frá með einhverjum bitlegu. Þeir reyndu pressu þegar tvær mínútur voru eftir og staðan 79-63 og höfðu ekki erindi sem erfiði. Heimamenn sigldu skútunni í höfn með ágætis vinnudag að baki 84-65 þó það þurfi að huga aðeins að skútunni og fínpússa.
Snæfell: William Henry Nelson 30/19 frák/4 stoðs. Austin Magnus Bracey 18/4 frák/4 stoðs. Sigurður Þorvaldsson 13/6 frák/4 stoðs. Pálmi Freyr 13/5 frák/4 stoðs. Stefán Karel 10/3 frák. Snjólfur Björnsson 0. Jón Páll 0. Jóhann Kristófer 0. Hafsteinn Helgi 0. Sindri Davíðsson 0. Viktor Marínó 0. Almar Njáll 0.
Fjölnir: Daron Lee Sims 26/10 frák. Arnþór Freyr 13/9 frák. Hreiðar Bjarki 8. Ólafur Torfason 7/4 frák. Garðar Sveinbjörnsson 5. Valur Sigurðsson 4/4 frák. Davíð Ingi 2. Helgi Hrafn 0. Bergþór Ægir 0. Róbert Sigurðsson 0. Alexander Þór 0. Árni Elmar 0.
Texti og mynd: Símon B Hjaltalín.



