Nýliðar Tindastóls í Domino´s-deildinni unnu öruggan sigur í Síkinu í kvöld á liði Þórs úr Þorlákshöfn, 110-90 og hafa því unnið báða sína leiki deildinni eins og Haukar og KR. Darrel Flake lék ekki með Tindastól í kvöld vegna meiðsla en í staðinn kom inn Svavar Birgisson sem lék sinn 250. leik fyrir Tindastól.
Strax í upphafi leiks var ljóst hvert stefndi og eftir fjögurra mínútu leik var staðan orðin 14-2 fyrir Stólana og 33-17 eftir fyrsta leikhluta. Eftir það var leikurinn í raun aldrei spennandi.
Í öðrum leikhluta héldu Stólarnir áfram undirtökum í leiknum eftir að hafa hleypt Þórsurum full nálægt sér í upphafi leikhlutans, settu 30 stig gegn 23 stigum gestanna. Jafnt var á með liðunum í þriðja leikhluta og staðan að honum loknum 89-66. Í fyrri hluta fjórða leikhluta hikstaði Tindastólsvélin. Þórsarar keyrðu sterka vörn, unnu nokkra bolta og náðu að minnka muninn niður í 11 stig, 96-85, þegar að rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. En þá hrukku Stólarnir aftur í gang og unnu eins og áður segir 110-90.
Tindastólsliðið spilaði á köflum stórskemmtilegan bolta þar sem að boltinn gekk hratt á milli manna, ásamt leikgleði og baráttu. Helst mátti setja út á að varnarleikurinn var á stundum dálítið kærulaus í seinni hálfleiknum. Þórsarar áttu einnig sína spretti, sérstaklega í seinni hálfleik en í kvöld var það einfaldlega ekki nóg.
Stig Tindastóls: Myron Dempsey 27/11 fráköst, Pétur Rúnar 21, Darrel Lewis 19/5 fráköst/6 stoðsendingar, Helgi Rafn 17/7 fráköst, Svavar Birgisson 8 stig/11 fráköst, Ingvi Rafn 6/7 fráköst/11 stoðsendingar, Helgi Freyr 6, Finnbogi 4 og Viðar 2.
Stig Þórs: Vincent Stanford 27 stig/9 fráköst, Tómas Heiðar 19, Þorsteinn Már 13, N.Sovic 10, Baldur Þór 9, Emil Karel 5, Oddur 3, Halldór Garðar 2 og Grétar Ingi 2.
Umfjöllun/ Sigurður Árnason



