Í Ásgarði í kvöld mættust tvö lið sem þurftu að sanna fyrir Dominosdeildinni að þau ætluðu að vera í toppbaráttunni í vetur, en ekki vandræðast með sæti í úrslitakeppninni í vor. Stjarnan tapaði sínum fyrstu tveimur leikjum, sá fyrri heima gegn Spútnik liði deildarinnar Tindastóli og sá seinni í Keflavík. Grindavík hins vegar var með einn tapleik og einn sigurleik undir beltinu fyrir leikinn í kvöld. Töpuðu fyrir Haukum á Ásvöllum í fyrsta leik en unnu Skallagrím sannfærandi í Grindavík. Þar áður höfðu þeir tapað illa í leik gegn KR um meistara meistaranna svo þessi leikur var mjög mikilvægur fyrir gestina engu að síður.
Lítið fór fyrir varnarleik í fyrri hálfleik en honum lauk í stöðunni 53-48 fyrir Stjörnunni. Bæði lið skutu afburðavel í fyrsta hluta en mikill ruslabolti var spilaður í öðrum, þar sem Grindavík tapaði boltanum 7 sinnum. Grindavík nýtti einnig illa færi sín undir körfunni en hitt vel fyrir utan eða 5/12 í þriggja stiga skotum í fyrri hálfleik.
Þegar um 6 mínútur voru eftir af öðrum hluta fór að bera á pirringi gestanna á góðum varnarleik Stjörnunnar og eigin úrræðaleysi í sókninni. Jóhann Árni fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu og tæknivillu strax á eftir fyrir að láta boltann skoppa í Leif Garðarsson, dómara leiksins. Vitleysisáherslur í dómgæslu NBA deildarinnar sem virðast hafa smitast yfir til Íslands.
Grindavík skoraði aðeins 2 stig á fyrstu 5 mínútunum í seinni hálfleik á meðan Stjarnan sallaði niður 16. Andlegt og móralskt gjaldþrot blasti við gestunum í þriðja hluta. Jóhann Árni gerði sig sekann um aðra óíþróttamannslega villu og var hent út úr húsi. Í kjölfarið fylgdi aragrúi af tæknivillum og tök dómaranna á leiknum engin. Staðan var 83-58 í lok 3. hluta og leikurinn í sjálfu sér tapaður.
Restin af leiknum einkenndist af örþrifaráðum Grindavíkur fyrstu mínúturnar þar sem þriggja stiga skotum var hent upp í gríð og erg, eða að meðaltali 1 á hverri mínútu. Pick&Roll vörn Grindavíkur var í molum og Stjarnan nýtti sér það hið ítrasta. Leikur Grindavíkur kristallaðist í einu augnabliki þegar varamaður Grindvíkinga skaut þriggja stiga skoti sem fór 4-5 hringi í körfunni og þaut svo upp úr – agaleysi og andlegt þrot í bland við ítrekaða óheppni.
Öruggur og jafnframt mjög mikilvægur 103-78 sigur Stjörnunnar var svo staðreynd þegar flautan gall í lok leiks.
Það virtist ekki angra Stjörnumenn að besti leikstjórnandi þeirra, Justin Shouse var frá annan leikinn í röð, en hann glímir við meiðsli. Dagur Kár og Jarrid Frye stóðu leikstjórnendavaktina með sóma.
Mikið var um tilþrif í leiknum en Ólafur Ólafsson tróð boltanum í fyrsta leikhluta beint í frákasti yfir þrjá leikmenn Stjörnunna og stoppaði svo hraðaupphlaup Stjörnunnar strax á eftir með því að smyrja sniðskoti Dags Kár í spjaldið. Dagur Kár lét heldur ekki sitt eftir liggja heldur tróð framan í Joel Haywood sem ætlaði að stöðva hraðaupphlaup Dags en endaði með leðrið í andlitinu. Sjáið öll helstu tilþrif leiksins hér í myndbandi frá SportTV.
Jarrid Frye var frábær fyrir Stjörnuna með 21 stig og 14 fráköst. Marvin Valdimarsson bætti við 20 stigum í 9/14 nýtingu og 6 fráköstum. Dagur Kár átti frábæran leik fyrir sína menn með 17 stigum þó hann hafi verið að hitta illa. Hann hins vegar bætti við 6 stoðsendingum og tapaði aðeins 2 boltum.
Fátt um fína drætti hjá Grindvíkingum en þar leiddi Oddur Rúnar Kristjánsson með 17 stig og 7/14 í skotum. Hann spilaði aðeins 23 mínútur og hefði mátt spila meira að mati undiritaðs. Joel Haywood var arfaslakur í leiknum þó hann hafi halað inn 13 stigum en hann skauta alls 4/11. Ólafur Ólafsson setti 13 stig einnig og bætti við 8 fráköstum auk þess sem Ómar Örn setti einnig 13 og tók 11 fráköst, þar af 6 í sókn.
Umfjöllun: [email protected]



